En kannski er það ekki þetta sem átt er við með spurningunni heldur Maríutásurnar sem lýst er í svari Sigrúnar Karlsdóttur veðurfræðings við spurningunni Eru til margar gerðir skýja? Þar er því haldið fram að Maríutásur séu ský af sérstakri tegund. En eru þessar Maríutásur á himninum eitthvað líkar tánum á Maríu? Voru forfeður og formæður okkar undir annarlegum áhrifum þegar þau tóku upp á því að hafa þetta óvirðulega nafn um þessi sérkennilegu ský? Eða hétu þau kannski upphaflega 'Maríutjásur' þannig að við séum að fást við einfalda og ómerkilega afbökun orðs? Þetta hefur reynt mjög á lærdóm, útsjónarsemi og kunnáttu ritstjórnar. Allar helstu orðabækur sem við höfum rannsakað halda því fram að orðhlutinn 'tása' merki þarna 'táin ull' eða ullarlagður. Sú lausn vandans kemur heim við þjóðtrú þar sem því er haldið fram að þarna sé María guðsmóðir að breiða ullina sína til þerris. Skemmtileg skýring handa þeim sem trúa að María sé til og hún eigi heima þarna uppi. Við leggjum málið hér með í dóm lesandans og hvetjum hann eða hana til að beita dómgreind sinni til að skera úr um þetta mikilvæga mál. Svo er kannski líka vert að hugleiða sér til gamans, hver verði niðurstaða fræðimanna í þessu máli eftir svo sem 100 ár þegar almenningur verður fyrir löngu hættur að þekkja til ullarverkunar. Að lokum minnum við lesandann á að taka hæfilegt mark á svarinu því að það er föstudagssvar, -- og ekki nóg með það, heldur er það birt á þrettánda degi mánaðar klukkan 13:33. Mynd Cigolís af Maríu sem tyllir tánum á tunglið.
- The Interaction of Artists and Scientists in the Renaissance. Sótt 13.11.2009.