Fiskar af þessari ætt eru frekar stórir, hávaxnir og þunnvaxnir, hafa meðalstórt hreistur og gaddalausa ugga. Bramafiskar eru miðsævis- og úthafsfiskar heitra og tempraðra hafa en slæðast stundum norður á bóginn. Í riti Gunnars Jónssonar fiskifræðings, Íslenskir fiskar sem kom út árið 1983, segir hann að silfurbrama hafi orðið vart í tvígang við Ísland, fyrst við Vestmannaeyjar sumarið 1960 og síðar suðaustur af Hópsnesi við Grindavík í júní 1967. Að sögn fisksala hefur silfurbrami fengist nokkrum sinnum á handfæri á þessari öld og því orðinn nokkuð algengari í veiðarfærum íslenskra sjómanna en á nýliðinni öld. Hversu algengur hann verður er ekki hægt að segja á þessari stundu en það eru þó einhverjar líkur á því að hann komi til með að veiðast meira í framtíðinni. Þegar útbreiðslukort (sjá hér að neðan) er skoðað sést glögglega að útbreiðsla hans er djúpt suður af landinu. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að suðlægari tegundir hafa fært sig norðar eftir því sem heimshöfin hafa hlýnað. Ef fram fer sem horfir með hlýnun sjávar eru líkur á að silfurbraminn færi sig einnig norðar og verði algengari á miðunum hér við land. Hvenær þetta gæti gerst er hins vegar óvíst.
Heimild og myndir:
- Gunnar Jónsson. Íslenskir fiskar. Reykjavík, Fjölvi, 1983.
- Myndir: FishBase. Sóttar 23. 12. 2009.
Hverjar eru líkurnar á því að hinn fágæti en gómsæti flatfiskur silfurbrami verði algengari við Íslandsstrendur í náinni framtíð?