Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Messier-skráin samanstendur af 110 svonefndum djúpfyrirbærum sem franski stjörnufræðingurinn Charles Messier (1730-1817) skrásetti á árunum 1758 til 1782. Messier var fyrst og fremst að leita að halastjörnum og ákvað að skrásetja öll þau fyrirbæri sem voru þokukennd og oft erfitt að greina frá halastjörnum í sjónaukum þess tíma. Markmið Messiers var að skrásetja fyrirbæri sem oft var ruglað saman við halastjörnur og auðvelda þannig stjörnufræðingum leitina.
Fyrsta útgáfa skrárinnar kom út árið 1774 og innihélt 45 fyrirbæri eða frá M1 (Krabbaþokunni) upp í M45 (Sjöstirnið). Lokaútgáfa skrárinnar kom út árið 1781 og innihélt 103 fyrirbæri. Stjörnufræðingar á 20. öld bættu síðan við fyrirbærum 104-110 í skrána.
Messier stundaði athuganir sínar frá stjörnustöð í turni Hotel de Clugny í París í Frakklandi. Af þeim sökum eru aðallega fyrirbæri á norðurhveli himins í skránni. Mörg glæsilegustu fyrirbæri suðurhiminsins eins og stjörnuþokan Eta Carinae, kúluþyrpingarnar Omega Centauri og 47 Tucanae auk Stóra- og Litla-Magellanskýsins, eru því ekki í skrá Messiers. Stjörnustöð Messiers var fjarlægð af turninum snemma á 19. öld en húsið er enn til og gegnir nú hlutverki safns.
Í dag er Messier-skráin fyrst og fremst samansafn af fallegustu djúpfyrirbærum næturhiminsins, það er að segja geimþokum, stjörnuþyrpingum og vetrarbrautum. Útgáfa skrárinnar markaði þáttaskil í sögu rannsókna á djúpfyrirbærum og var fyrsta yfirgripsmikla safnið sem gefið var út um þessi fyrirbæri. Rannsóknir stjörnufræðinga á þessum fyrirbærum leiddu að lokum til mikilvægra uppgötvana á lífsferlum stjarna, eðli vetrarbrauta og þróun alheimsins.
Margir stjörnuáhugamenn reyna við svonefnt „Messier-maraþon“ sem felst í því að reyna að sjá öll Messier-fyrirbærin á einni nóttu í kringum jafndægur að vori. Við Íslendingar erum staddir það norðarlega á hnettinum að syðstu fyrirbærin í skránni sjást ekki héðan. Þeir sem búa sunnar á hnettinum, til dæmis í Frakklandi eða enn sunnar, geta spreytt sig á maraþoninu. Þótt þrautin beri formlegt nafn er hún í raun óformleg einstaklingskeppni þar sem hver keppir við sjálfan sig. Síðustu fyrirbærin koma í ljós þegar líður að sólarupprás og því er gott úthald nauðsynlegt, ásamt þekkingu á staðsetningu og útliti Messier-fyrirbæranna.
Mynd:Charles Messier á Wikipedia. Sótt 28. 10. 2009.
Þetta svar er fengið af Stjörnufræðivefnum og birt með góðfúslegu leyfi. Þar er meðal annars hægt að sjá lista yfir öll fyrirbærin sem nefnd eru í Messier-skránni.