Hvernig er lesblinda greind? Hvenær var byrjað að greina lesblindu hér á Íslandi? Og hve gömul eru börn þegar það er hægt að greina þau?Fjöldi lesblindra eða lesraskaðra nemenda er mjög á reiki. Nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum benda til þess að helstu ástæðu þess sé að leita í „ófullnægjandi uppfræðslu“. Sum börn geta lært að lesa en þurfa langtum einbeittari og kerfisbundnari þjálfun en tök virðast vera á að veita í skólum. Eftir stendur þá tiltölulega fámennur hópur barna – líklega innan við fimm af hundraði – sem á í viðvarandi erfiðleikum með lestur. Ekki verður fullyrt hvenær greining á lesblindu hófst fyrst hér á landi en greiningar voru meðal annars gerðar á vegum sálfræðideilda skóla. Þær voru fyrst stofnaðar um 1960. Greiningarviðmið Ekki er til ein aðferð við að greina lesblindu sem allir hafa getað sammælst um. Oft er þó unnið út frá þeirri skilgreiningu á lesblindu – eða sértækum lesröskunum – sem er að finna í ICD-10 flokkunarkerfinu, alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma og annarra heilbrigðisvandamála. Í því er sértæk lesröskun skilgreind svo:
Sértæk lesröskun er ein tegund sértækrar þroskaröskunar á námshæfni. Aðaleinkenni hennar er sértæk og veruleg skerðing á þróun lestrarfærni. Þessi skerðing verður ekki skýrð með greindaraldri, skertri sjón eða ófullnægjandi uppfræðslu. Skerðingin getur birst sem skortur á lesskilningi, erfiðleikar við að greina orð, vandi við að lesa upphátt, og lítil færni við að leysa verkefni þar sem lestrar er krafist. Stafsetningarerfiðleikar fylgja iðulega sértækri lesröskun, og eru oft fyrir hendi fram á unglingsaldur, jafnvel þótt nokkur árangur hafi náðst í lestri. Þegar sértæk lesröskun kemur fram hjá barni á skólaaldri á það sér gjarna sögu röskunar í tal- og málþroska á forskólaaldri. Á skólaaldri býr barnið oft við hegðunarvandamál og tilfinningaerfiðleika.Kjarni þessarar skilgreiningar er sú staðhæfing að lesröskunin verði ekki skýrð með skertri greind. Í samræmi við það hefur verið viðtekin venja um langa hríð að greina lesblindu sem frávik lestrargetu frá því sem búast mætti við með hliðsjón af greind barnsins. Samkvæmt þessu þarf því bæði að mæla greind barnsins og lestrarfærni. Um greind og greindarpróf er meðal annars hægt að lesa í svarinu Hver er greindarvísitala meðalmanneskju og hvenær er hún orðin óeðlilega lág eða há? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur og svörunum Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir?, Er sannað að greindarpróf verki? og Hvað er greind? eftir Sigurð J. Grétarsson.
„Undir yfirborðinu“, mynd eftir Alexander, 9 ára.
- Grétar L. Marinósson, Fjölnir Ásbjörnsson, Jónas G. Halldórsson og Þóra Kristinsdóttir (1997). Sértæk lesröskun. Skýrsla starfshóps menntamálaráðuneytisins um nemendur með sértæka lestrar- og réttritunarerfiðleika í grunnskólum og framhaldsskólum. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.
- Torgesen, J. K. (2005). Recent discoveries on remedial interventions for children with dyslexia. Í M. J. Snowling og C. Hulme (ritstj.), The science of reading: A handbook (bls. 521–537). Oxford: Blackwell Publishing.
- Myndin er af Recognizing dyslexia.