Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ekkert virtist vera óviðkomandi hinum breska landkönnuði og fjölfræðingi Frances Galton (1822-1911). Hann fékkst við ótal ólík fræðasvið, þar á meðal tölfræði, aðferðafræði, sálfræði, mannfræði, læknisfræði, veðurfræði, erfðarannsóknir og jafnvel kynbótafræði manna.
Frances Galton (1822-1911).
Galton var sonur hjónanna Samuels Tertiusar Galtons, auðugs bankamanns, og Francis Anne Viollette Darwin, sem var hálfsystir föður Charles Darwins. Um Darwin má lesa í svari Hrannars Baldurssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar, Hver var Charles Darwin? Að ósk foreldra sinna hóf Galton nám í læknisfræði við Trinity-háskólann í Cambridge. Í læknanáminu kom strax í ljós áhugi hans á mælingum og ýmiss konar raunprófunum sem átti eftir að einkenna allt hans síðara starf. Hann ákvað til að mynda að prófa öll lyf á sjálfum sér og tók þau inn, eitt af öðru, eftir stafrófsröð heita þeirra. Hann hætti að lokum í C-inu eftir að hafa prófaði króton-olíu (e. croton oil), öflugt og baneitrað hægðalosandi og uppsölulyf sem nú er talið of hættulegt til að nota í læknisfræðilegum tilgangi.
Galton flosnaði upp úr læknanáminu og sneri sér nær alfarið að ýmiss konar ferðalögum og landkönnun. Ferðirnar fjármagnaði hann með arfi eftir föður sinn. Galton ferðaðist meðal annars til Afríku þar sem hann sigldi á árunum 1845-46 upp með Nílarfljóti. Árin 1850-52 kannaði hann svo mannlíf og landafræði Damaralands og Ovampolands í suðvesturhluta Afríku, svæða sem áður voru nær óþekkt.
Fljótlega eftir að Galton sneri heim frá Afríku giftist hann Louisu Butler og hætti landkönnun að mestu, þótt hann styddi oft ferðir annarra með fjárframlögum. Þess í stað sökkti hann sér niður í vísindarannsóknir. Uppgötvanir Galtons eru óendanlega margar. Hann bjó til ýmis tæki til veðurmælinga, reyndi einn fyrstur manna að búa til veðurkort með veðurfréttum og -spám og var fyrstur til að uppgötva að til voru háþrýstisvæði, eða hæðir.
Eitt af veðurkortum Galtons.
Galton hafði líka gífurlega mikinn áhuga á mannamun og erfðarannsóknum, hvort tveggja vegna áhrifa frá frænda sínum Darwin og kenningu hans um þróun og náttúruval. Galton var til að mynda fyrstur til að átta sig á því að ólíklegt væri að tveir einstaklingar hefðu samt konar fingraför, eins og Jón Gunnar Þorsteinsson segir nánar frá í svarinu Ef maður sker af sér húðina á þumalfingri, kemur þá nákvæmlega sama fingrafar aftur? Einnig hafði hann mikinn áhuga á greind manna og hvernig hún erfist, og bjó meðal annars til fyrstu greindarprófin, sem reyndar voru nær vitagagnslaus. Um þetta má lesa nánar í svari Sigurðar J. Grétarssonar, Hvað er greind? Að lokum má geta þess að hann var fyrstur til að rannsaka það sem nú gengur undir nafninu samskynjun sem getur til að mynda einkennst af því að fólk heyrir í litum eða finnst orð hafa persónuleika. Lesa má nánar um samskynjun í svarinu Hvað er samskynjun, er til dæmis hægt að finna bragð að orðum?
Til að geta gert allar þessar rannsóknir lagði Galton grundvöllinn að aðferðafræði rannsókna nútímans. Hann var fyrstur til að rannsaka tvíbura með það í huga að kanna áhrif erfða og umhverfis á tiltekna mannlega eiginleika. Einnig fann hann upp bæði fylgnireikninga og aðhvarfsgreiningu, tvær tölfræðiaðferðir sem mikið eru notaðar í ýmiss konar félagsvísindum og öðrum greinum.
Til að sýna fram á að eiginleikar normaldreifðust fann Galton upp Quincunx eða baunavélina. Ef smellt er á myndina er hægt að sjá hermun af slíkri vél.
Einna frægastur, eða jafnvel alræmdastur, var Galton fyrir hugmyndir sínar um mannbætur. Þar sem Galton taldi að flestallir eiginleikar, þar á meðal sálfræðilegir eiginleikar eins og greind og persónuleiki, erfðust manna á milli fannst honum upplagt að kynbæta mannkynið. Nú á dögum þættu tillögur Galtons líklega furðulegar og jafnvel hneykslanlegar. Til að mynda fannst honum að gera ætti ráðstafanir til að Kínverjar gætu sest að í Afríku og bolað burt „hinum óæðri svarta kynstofni“. Einnig lagði hann til að finna ætti hæfustu menn og konur Bretlands og bjóða þeim háar fjárhæðir til að ganga í hjónaband. Varast verður þó að horfa á mannbótastefnu Galtons með gagnrýnisgleraugum vestrænnar hugsunar nútímans. Allt önnur gildi einkenndu þennan tíma og sjálfur taldi Galton ekki að hann væri að gera neitt nema gott. Hugmyndir Galtons voru líka mun fremur um að fá breskt mið- og hástéttarfólk til að auka kyn sitt en að takmarka ætti tækifæri annarra til þess sama. Kynbótastefnu átti aftur á móti síðar eftir að vera framfylgt með mun meira offorsi í bæði Bandaríkjunum og Þýskalandi nasistatímans, en það er önnur saga.
Heimildir og frekara lesefni
Heiða María Sigurðardóttir. „Hver var Francis Galton?“ Vísindavefurinn, 17. nóvember 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5413.
Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 17. nóvember). Hver var Francis Galton? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5413
Heiða María Sigurðardóttir. „Hver var Francis Galton?“ Vísindavefurinn. 17. nóv. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5413>.