Þrálátur orðrómur var um að kommúnistastjórnin hygðist loka landamærunum milli Austur- og Vestur-Berlínar. Fimmtánda júní 1961 var Walter Ulbricht, formaður austurþýska kommúnistaflokksins, spurður á fréttamannafundi hvort rétt væri að loka ætti Brandenborgarhliðinu. Ulbricht svaraði: „Keiner hat die Absicht eine Mauer zu errichten.“ („Enginn hefur í hyggju að reisa múr.“) Nýlega fundust skjöl í Moskvu þar sem er meðal annars afrit af símtali Ulbrichts og Krútsjovs, aðalritara sovéska kommúnistaflokksins, fyrsta ágúst 1961. Þar kemur ekki bara fram að til stendur að byggja múr, heldur ræða þeir nákvæmar útfærslur á framkvæmdinni. Austur-þýska kommúnistastjórnin kallaði múrinn „Antifaschistischer Schutzwall“, sem þýðir: „Varnarveggur gegn fasisma.“ Stjórnin hélt því fram að Austur-Þjóðverjum stafaði hætta af fasískum öflum í vestrinu sem vildu grafa undan Austur-Þýskalandi. Bygging múrsins olli hvorki mótmælum né uppþotum í Austur-Þýskalandi. Langflestir Austur-Þjóðverjar litu á sig sem sósíalista og töldu að múrinn væri ill nauðsyn. Í Vestur-Þýskalandi, og sérstaklega í Vestur-Berlín, var múrnum mótmælt harðlega, en allt kom fyrir ekki. Múrinn varð alltaf umfangsmeiri og þróaðri. Til að byrja með var strengdur gaddavír eftir götunum og milli húsanna. En strax þann 15. ágúst var byrjað að rífa upp malbik og hlaða múrvegg. Árið 1962 var bakveggur (þ. Hinterlandmauer) byggður til að gera flótta erfiðari. Svæðið milli framveggs og bakveggs var fljótlega kallað dauðasvæði. Það var flóðlýst, lagt jarðsprengjum og sjálfvirkum skotbúnaði og varðturnar voru með reglulegu millibili. Árið 1975 var byggður nýr veggur úr steypueiningum. Að lokum var mannvirkið svo „fullkomið“ að það var nær ógerlegt að sleppa yfir það lifandi.
Fáeinar staðreyndir um metra og mannfjölda:
- Múrinn stóð frá 13. ágúst 1961 til 9. nóvember 1989.
- Múrinn milli Austur- og Vestur-Berlínar var 43 km langur.
- Múrinn í kringum Vestur-Berlín sem skildi borgarhlutann frá Austur-Þýskalandi var 155 km.
- Landamærin milli Austur- og Vestur-Þýskalands voru í heild tæpir 1400 km.
- Talið er að 136 manns hafi verið drepnir eða látið lífið við flóttatilraunir. Um það bil 200 særðust.
- Hundruð ef ekki þúsundir voru dæmd í fangelsi fyrir ætlaðan flótta.
- Um 380 þúsund manns yfirgáfu Austur-Þýskaland á löglegan hátt frá 1961 til 1988.
- Tæplega 344 þúsund yfirgáfu landið löglega árið 1989.
- Hver var ástæðan fyrir kalda stríðinu? Var það nauðsynlegt eða hefði verið hægt að sleppa því? eftir Val Frey Steinarsson
- Dream of Arlequin. Sótt 2. 12. 2009.
- Berlin Mauer á Wikipedia. Höfundur myndar: Thierry Noir. Birt undir GNU Free Documentation og Creative Commons-leyfum. Sótt 2. 12. 2009.