Með því að gæta að mataræði barns með PKU er hægt að halda einkennum í skefjum. Ekki má gefa barninu fæðutegundir sem innihalda mikið af fenýlalaníni, til að mynda kjöt, fisk, mjólk, egg, venjulegt hveiti og aðrar algengar fæðutegundir, en þess í stað á að gefa prótínblöndur sem innihalda ekki fenýlalanín. Gæta þarf að þessu alla ævi. Mikilvægt er að barnshafandi konur með sjúkdóminn gæti vel að mataræði sínu á meðgöngutímanum svo að fóstur með sjúkdóminn þroskist á sem eðlilegastan hátt. Hægt er að gera próf á meðgöngu til að athuga hvort fóstur er með sjúkdóminn. Einnig er hægt að gá að stökkbreytta geninu í fólki með ensímprófi. Einkenni PKU geta verið væg eða alvarleg. Eitt einkenni er að húð og hár barns, svo og augnlitur, er ljósari en systkina þess sem eru ekki með sjúkdóminn. Þetta stafar af því að fenýlalanín tekur þátt í myndun litarefnisins melaníns í líkamanum. Önnur einkenni eru seinkun á andlegri getu og félagsfærni, óeðlilega lítið höfuð, ofvirkni, skrykkjóttar hreyfingar útlima, greindarskerðing, krampar, húðútbrot, skjálfti og óeðlileg handastaða. Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður finnst sérstök lykt af húð, andardrætti og þvagi einstaklingsins. Það er vegna þess að fenýlalanín og afurðir þess hlaðast upp í líkamanum.
Ef farið er nákvæmlega eftir fyrirmælum um mataræði allt frá byrjun þroskast barn með PKU mjög vel og að mestu eðlilega. Ef töf verður á meðhöndlun eða hún ekki hafin mun heilinn skaddast. Ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður getur hann leitt til greindarskerðingar fyrir eins árs aldur. Algengasti andlegi kvillinn hjá börnum með PKU sem ekki er haldið á fenýlalanínsnauðu mataræði er athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD). Heimildir og myndir:
- Phenylketonuria á MedlinePlus
- Phenylketonuria á Genetics Home Reference
- Phenylketonuria á Wikipedia
- Myndir af PKU-prófun: Phenylketonuria á Wikipedia
- Mynd af fæðu: PKU Primer for Adolescents and Adults á The New England Consortium of Metabolic Programs
- Meðfæddir efnaskiptagallar - grein á Doktor.is eftir Sigurbjörgu Ólafsdóttur, móður barns með PKU
- PKU félagið á Íslandi