Í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu segir um vorið að það sé frá jafndægri til fardaga en þá taki við sumar til jafndægris á hausti. Vorið nær því frá því í mars og fram að fimmtudegi í 7. viku sumars sem er á bilinu frá 31. maí til 6. júní. Ýmis dæmi um jafndægur er að finna í ritmálssafni Orðabókarinnar. Eitt þeirra er úr ritinu Veðurfræði eftir Jón Eyþórsson (bls. 13):
Um vetrarsólhvörf á norðurhveli veit norðurskautið undan sól, en suðurhvelið að. Hálfu ári síðar er þetta öfugt, þá höfum vér miðsumar. Mitt á milli er jafndægur á vor og haust.Orðið jafndægur er til í skyldum málum. Í dönsku er til dæmis talað um jævndøgn. Í latínu var talað um aeqvinoctium af aeqvus 'jafn' og -noctium sem leitt er af nox 'nótt'. Í hinu forna Rómaríki var því miðað við nóttina en hér í norðri við daginn. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Er munur á orðunum sólhvörf og sólstöður eða merkja þau það sama?
- Hvernig má fá upplýsingar um sólargang og slíkt eftir árstímum og stöðum á Íslandi?
- Ritmálsskrá OH
- Árni Björnsson. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík 1993.
- Jón Eyþórsson. Veðurfræði. Reykjavík 1955.
- Mynd: About.com: Forestry. Ljósmyndari: Steve Nix. Sótt 25. 9. 2009.
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill um orð vikunnar á vef Stofnunar Árna Magnússonar.