Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiHver er réttarstaða samkynhneigðra í staðfestri samvist eða sambúð og í hverju er hún frábrugðin réttarstöðu gagnkynhneigðra?
Samkvæmt 1 gr. laga nr. 87/1996, sem sett voru árið 1996, geta tveir einstaklingar af sama kyni stofnað til svokallaðrar staðfestrar samvistar. Hugtakið staðfest samvist hafði ekki verið notað áður í lögum og var það tekið upp til aðgreiningar frá óvígðri sambúð og hjúskap. Í 5. gr. laganna kemur fram að aðilar í staðfestri samvist hafi, með þeim undantekningum sem fram koma í 6. gr., sömu réttarstöðu og fólk í hjúskap. Ákvæði hjúskaparlaga, gilda því einnig um staðfesta samvist.
Meginmunur á réttarstöðu einstaklinga í hjúskap annars vegar og staðfestri samvist hins vegar felst í ákvæum um ættleiðingar og tæknifrjóvgun. Í 6 gr. laga nr. 87/1996 segir:
Ákvæði ættleiðingarlaga um hjón gilda ekki um staðfesta samvist. Þó getur einstaklingur í staðfestri samvist ættleitt barn hins sem hann hefur forsjá fyrir, nema um sé að ræða kjörbarn frá öðru landi. Lög um tæknifrjóvgun gilda heldur ekki um staðfesta samvist.
Réttarstaða tveggja einstaklinga af sama kyni sem velja sambúð í stað staðfestrar samvistar er hins vegar öllu snúnari. Lagaákvæði sem gilda um óvígða sambúð karls og konu ná ekki yfir einstaklinga af sama kyni sem skrá sig í sambúð. Samkynhneigt par í óvígðri sambúð nýtur til dæmis ekki sama skattalega hagræðis og gagnkynhneigt par í sömu stöðu. Samkynhneigðir njóta heldur ekki sömu réttinda og gagnkynhneigðir hvað varðar lög um félagslega aðstoð og almannatryggingar, til dæmis rétt til makalífeyris og makabóta, séu þeir ekki í staðfestri samvist.
Í lögum um erfðafjárskatt nr. 14/2004 er tiltekið að ekki skal borga erfðafjárskatt af arfi sem rennur til sambýlisaðila samkvæmt erfðaskrá. Þetta á hins vegar ekki við um samkynhneigða í óvígðri sambúð þar sem hugtakið sambýlisaðili er þarna einskorðað við einstakling af gagnstæðu kyni. Af þessu leiðir að eftirlifandi samkynhneigður sambýlisaðili þarf að greiða erfðafjárskatt af arfi sem honum hlotnast samkvæmt erfðaskrá.
Það má með mjög sannfærandi rökum halda því fram að þessi mismunun í lögum á stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í óvígðri sambúð sé brot á jafnræðisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar, um jafnrétti fyrir lögum án tillits til meðal annars kynferðis.
Gagnlegir tenglar um skyld efni
Freyr Björnsson. „Hver er réttarstaða samkynhneigðra í staðfestri samvist eða sambúð og í hverju er hún frábrugðin réttarstöðu gagnkynhneigðra?“ Vísindavefurinn, 25. október 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5352.
Freyr Björnsson. (2005, 25. október). Hver er réttarstaða samkynhneigðra í staðfestri samvist eða sambúð og í hverju er hún frábrugðin réttarstöðu gagnkynhneigðra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5352
Freyr Björnsson. „Hver er réttarstaða samkynhneigðra í staðfestri samvist eða sambúð og í hverju er hún frábrugðin réttarstöðu gagnkynhneigðra?“ Vísindavefurinn. 25. okt. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5352>.