Hér á landi finnst hún í byggðarlögum á Suðvesturlandi, það er á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, Selfossi, Eyrarbakka og Laugarvatni, einnig í Grundarfirði, á Hellissandi og Akureyri. Parketlús fannst fyrst hér á landi árið 1980 í Grundarfirði. Hún varð fljótlega afar algeng á höfuðborgarsvæðinu, einkum í hverfum sem hafa verið að byggjast upp. Algengt er að íbúar nýbyggðu húsanna verði parketlúsa varir um það bil ári eftir að parket var lagt á gólf. Það virðist vera sá tími sem kvikindin örsmáu þurfa til að verða nógu algeng til að verða sýnileg. Ekki hefur fengist staðfesting á því hvernig þau berast í hús en getgátur eru uppi um að þær berist með byggingarefninu. Þekkt er tilvik þar sem parketlýs fóru að finnast í geymslu þar sem parketstafli hafði staðið ólagður í átta mánuði. Fullþroska parketlýs hafa mjóa vængstubba sem duga ekki til flugs en þær nota þá til að taka undir sig stökk. Af stökkunum þekkjast þær auðveldlega frá öðrum ryklúsum í húsum. Parketlýs eru illa þokkaðar af mörgum en geta varla talist skaðvaldar. Hins vegar hefur fæða þeirra, sveppirnir, reynst heilsu margra íbúa nýrra húsa skeinuhættir. Heimildir:
- Kucerová, Z. 1997. Macropterous form of Dorypteryx domestica (Psocoptera: Psyllipsocidae). Eur. J. Entomol. 94: 567–573.
- Mockford, E.L. 1993. North American Psocoptera (Insecta)). Fauna and Flora Handbook No. 10. 455 bls.
- O´Connor, J.P. 1999. Dorypteryx domestica (Smithers) (Psocoptera, Psyllipsocidae) new to Ireland. Entmol. mon. Mag. 135: 242.
- Parketlús. © Erling Ólafsson. Sótt 20.8.2009.
Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Svarið er birt hér í örlítið breyttri mynd. Upprunalegi textinn er hér og lesendur eru hvattir til að kynna sér hann og afla sér frekari fróðleiks um pöddur.