Er 15 ára barn komið á sakaskrá alla ævi ef það hnuplar sælgæti í verslun og eigandi kærir?Samkvæmt 19. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 skal ríkissaksóknari halda sakaskrá fyrir allt landið þar sem skráð eru úrslit opinberra mála. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gerð og varðveislu sakaskrár, aðgang að henni og sakavottorð. Í reglugerðinni er að sama skapi heimilt að ákveða hvað skuli skráð í sakaskrá. Í samræmi við þetta ákvæði er nú í gildi reglugerð um sakaskrá ríkisins nr. 569/1999. Þar kemur þar fram í 3. gr. að í sakaskrá skuli færa upplýsingar um opinber mál á hendur einstaklingi eða lögaðila þegar máli er lokið með:
- dómi eða viðurlagaákvörðun í máli vegna brots á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni,
- dómi eða viðurlagaákvörðun í máli vegna brots á öðrum lögum þegar ákveðin er fangelsisrefsing, ákvörðun refsingar er frestað eða ákveðin er réttinda- eða leyfissvipting eða dæmd sekt 50.000 krónur eða hærri,
- lögreglustjórasátt í máli vegna brots á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni,
- lögreglustjórasátt eða sektargerð tollstjóra í máli vegna brots á öðrum lögum þegar sekt er 50.000 krónur eða hærri eða brot hefur leitt til réttinda- eða leyfissviptingar,
- ákærufrestun.