Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það getur verið mjög varasamt að borða ákveðnar tegundir sveppa þar sem þær innihalda efnasambönd sem valda truflun á líkamsstarfsemi. Sem dæmi má nefna að til eru tegundir sem innihalda efnasambandið cyclopeptíð (e. cyclopeptide) sem getur valdið lífshættulegum lifrarskemmdum. Sumar sveppategundir innihalda vægari eiturefnasambönd svo sem silocíbin (e. psilocybin) sem veldur ofskynjunum og er stundum neytt vegna þeirra og þá jafnvel í bland við fíkniefni eins og LSD. Silocíbin veldur ofskynjunum líkt og LSD en er um 200 sinnum veikara.
Hér á eftir eru nefnd nokkur dæmi um sveppi í íslenskri flóru sem teljast vera eitraðir, en upptalningin er ekki tæmandi.
Berserkjasveppur (Amanita muscaria)
Berserkjasveppurinn er sjálfsagt þekktasti eitursveppurinn í íslenskri flóru. Hann er mjög áberandi í útliti eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Hatturinn getur verið allt að 30 cm á breidd, blóðrauður að lit með hvíta depla en það eru hululeifar sem hverfa með tímanum þar sem þær skolast burt með regni. Stafurinn er hvítur og hefur þéttar fanir undir hatti. Kjörlendi berserkjasvepps er skóg- og kjarrlendi og virðist hann helst vaxa í samneyti við birki og fjalldrapa.
Berserkjasveppur inniheldur nokkrar tegundir eiturs og hafa rannsóknir sýnt að styrkur þeirra fer eftir vaxtasvæðum og ýmsum eðlisrænum áhrifum umhverfisins á hann. Kunnasta eitrið er múscarín (e. muscarin) en það hefur ekki fundist í það miklu magni í berserkjasveppi að það skýri eitt og sér eituráhrif hans. Önnur eiturefnasambönd sem finnast í berserkjasveppi eru meðal annars íbútensýra sem líkist glútamínsýru og eru áhrifin mjög áþekk. Önnur efni eru múscimól (e. muscimol) sem er umbreytt efnasamband íbútensýru og múscason (e. muscazon).
Slöttblekill (Coprinus atramentarius)
Slöttblekill er af ættkvísl blekla sem tilheyra ætt hattsveppa. Kjörlendi slöttblekils er graslendi og kemur hann oft upp í litlum klösum eða þyrpingum. Auk þess finnst hann oft í kringum viðarstubba og upp af rotnandi við. Þetta er tiltölulega stór sveppur, stafurinn er allt að 18 cm á hæð og hatturinn er 3-6 cm í þvermál. Helstu einkenni hans eru óreglulegar fellingar á jaðri hattsins sem eru biksvartar (sjá mynd hér til hliðar) en annars er hatturinn grábrúnn að lit.
Í þessum sveppi er efni sem bindur aldehíð dehýdrógenasa og virkar því eins og lyfið antabus ef áfengis er neytt samhliða neyslu sveppsins. Eitrunareinkennin eru meðal annars roði í andliti, ógleði, uppköst, lasleiki og hraður hjartsláttur. Þau koma fram frá 20 mínútum að 2 tímum eftir neyslu og geta varað í viku.
Viðarkveif (Galerina marginata)
Kjörlendi viðarkveifar er í rotnandi stubbum og trjábolum, meðal annars í viðarkurli sem algengt er að nota í göngustíga í skóglendi um allt land. Viðarkveifin er lítill og ekki matarmikill sveppur og ætti því ekki að freista fólks sem er á höttunum eftir sveppum í matargerð. Hatturinn er gulbrúnn eða súkkulaðibrúnn, hvelfdur (tæp hálfkúla) og um 1-5 cm breiður. Venjulega er hattbarðið markað af röndum þar sem dekkri rákir yfir fönum skipast á við ljósar. Stafurinn er 2-6 cm langur og 2-6 mm breiður.
Þessi sveppur hefur verið talinn frekar sjaldgæfur hér á landi en er mjög eitraður. Virka efnið sem veldur eitrunaráhrifum er amatoxín er eru einkenni eitursins helst frá meltingarvegi og nýrum.
Garðlumma (Paxillus involutus)
Garðlumma eða lummusveppur hefur stóran grábrúnan hatt sem getur orðið allt að 12 cm í þvermál. Hatturinn er með niðurbeygðu hattbarði og dæld í miðju. Stafurinn er grábrúnn að lit og sveigjast hattbarðarnir niður.
Garðlumma var til skamms tíma álitinn góður matsveppur en rannsóknir hafa sýnt að eiturefni úr honum safnast saman í líkamanum á löngum tíma. Hann var mikið tíndur áður fyrr í mið- og austurhluta Evrópu svo sem í Póllandi. Ef hann er borðaður hrár koma einkenni fram í meltingarvegi en slík einkenni eru hverfandi ef hann er matreiddur (höfundur mælir þó alls ekki með að fólk neyti sveppsins). Talið er að menn hafi fyrst áttað sig á alvarlegum eituráhrifum hans þegar þýski sveppafræðingurinn Julius Schäffer lést árið 1944 eftir að hafa neytt hans. Samkvæmt sjúkraskrám þá voru einkenni hans meðal annars niðurgangur og uppköst auk hitafloga. Hann lést svo af völdum nýrnabilunar.
Hærusveppaættkvísl (Inocybe )
Hærusveppir eru innan ættar kögursveppa (cortinariacea). Hér á landi hafa fundist rúmlega 20 tegundir innan ættkvíslarinnar og innihalda þeir eiturefnasambandið múscarín og að öllum líkindum í meiri styrk en í berserkjasveppum.
Hærusveppir eru litlir eða meðalstórir sveppir. Hatturinn oftast keilulaga en réttist stundum upp þegar sveppurinn þroskast og verður hnýfður. Hatturinn er brúnleitur en fanirnar gráleitar eða grábrúnar.
Meðal annarra sveppa sem vaxa hér á landi og innihalda eiturefnasambönd í einhverjum mæli eru:
Peðsveppir (Psilocybe spp.) sem innihalda eiturefnið silocíbin. Þetta eru smávaxnir sveppir, oft með glansandi brúnleitan og hvolflaga hatt. Þeir vaxa á jarðvegi, taði eða ýmsum rotnandi efnum.
Brennisteinsheftingur (Hypholoma fasciculare) þekkist á brennisteinsgulum hatti. Hann hefur fundist meðal annars í görðum hér á landi.
Meldrjóli (Claviceps purpurae) finnst stundum á melgresi og myndar þar svarta aflanga drjóla sem eru ummynduð frækorn. Eitrið sem hann myndar nefnist ergotamín og getur neysla þess valdið geðrænum einennum.
Heimildir og myndir:
Ása Margrét Ásgrímsdóttir. Matsveppir á Íslandi. Forlagið. Reykjavík. 2009.
Helgi Hallgrímsson. Sveppakverið. Garðyrkjufélag Íslands Reykjavík. 1979.
Jón Már Halldórsson. „Hvaða sveppir á Íslandi eru eitraðir?“ Vísindavefurinn, 18. september 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=53276.
Jón Már Halldórsson. (2009, 18. september). Hvaða sveppir á Íslandi eru eitraðir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=53276
Jón Már Halldórsson. „Hvaða sveppir á Íslandi eru eitraðir?“ Vísindavefurinn. 18. sep. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=53276>.