Leið lestarinnar tók nokkrum breytingum í áranna rás. Upphaflega fór hún um Strassborg, München, Vín, Búdapest og Búkarest. Ferðir Austurlandahraðlestarinnar lágu niðri á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar en eftir stríðið, árið 1919, var ný leið á milli Parísar og Istanbúl kynnt til sögunnar. Á þeirri leið var farið um Lausanne, Mílanó, Feneyjar, Belgrad og Sófíu áður en komið var á leiðarenda í Istanbúl. Þessi nýja leið kallaðist Simplon-Austurlandahraðlestin (e. Simplon Orient Express – kennd við Simplon-jarðgöngin sem tengja saman Sviss og Ítalíu) og varð hún fljótlega vinsælasta leiðin á milli Parísar og Istanbúl, þótt upphaflega leið Austurlandahraðlestarinnar væri enn þá farin samhliða. Ferðir Austurlandahraðlestarinnar lágu aftur niðri á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en hófust á ný eftir stríðið. Árið 1962 lögðust af ferðir á upphaflegu leið lestarleiðinni en Simplon-leiðin var áfram farin til ársins 1977, þegar beinar lestarferðir á milli Parísar og Istanbúl lögðust af. Síðan hefur heitið Austurlandahraðlestin verði notað um lest sem fer styttri vegalengd, fyrst á milli Parísar og Búkarest, síðar á milli Parísar og Vínar og nú allra síðast á milli Strassborgar og Vínar.
Austurlandahraðlestin hefur í gegnum tíðina verið sveipuð ljóma og tengd þægindum og munaðarlífi þótt hún hafi í upphafi verið eins og hver önnur lest. Kóngafólk, aðalsmenn, viðskiptajöfrar og aðrir slíkir ferðuðust með lestinni og hefur það sjálfsagt enn ýtt undir þá ímynd sem tengdist henni. Frægð sína enn þann dag í dag á Austurlandahraðlestin líka að einhverju leyti að þakka frægum rithöfundum sem nýttu lestina að einhverju eða miklu leyti sem sögusvið. Þar má að öðrum ólöstuðum nefna eitt frægasta verk Agöthu Christie, Austurlandahraðlestin (Murder on the Orient Express). Heimildir og myndir:
- Orient Express á Wikipedia. Skoðað 21. 9. 2009.
- Orient-Express á Encyclopædia Britannica Online. Skoðað 21. 9. 2009.
- Mynd úr lestarvagni: The Big Foto. Ljósmyndari: Pierre Metivier. Sótt 23. 9. 2009.
- Mynd úr kvikmynd: MailOnline. Sótt 23. 9. 2009.