Upphafleg spurning var sem hér segir:
Er það satt að geymslurými heilans sé óendanlegt? Og ef svo er hvernig kemst óendanleikinn þá fyrir í svona litlu rúmmáli? Það stóð nefnilega í sálfræðibók sem ég las að geymslurýmið væri óendanlegt.Sálfræðingar, lífeðlisfræðingar, tölvunarfræðingar og heimspekingar hafa rannsakað minni síðustu áratugina af nokkrum krafti. Eitt af því sem vekur athygli þegar niðurstöður þeirra eru metnar er hve minni er margslungið og hve margvísleg sjónarhorn virðast koma að gagni þegar til þess er skyggnst. Þegar sagt er að geymslurými sé óendanlegt, eins og vikið er að í spurningu, er það væntanlega í samhengi við rannsóknir sem byggjast á þrískiptingu minnis í skynminni, stundarminni og lengdarminni. Hver tegund lýtur eigin reglum, skynminni geymir upplýsingar úr nánasta umhverfi í örskotsstund, stundarminni er það sem maður hefur í huga eða man úr nýliðinni fortíð og nánasta umhverfi þá stundina, og lengdarminni er síðan allt sem maður man úr fortíð sinni. Hin tvö fyrrnefndu minniskerfi hafa greinilegar takmarkanir. Skynminni geymir upplýsingar aðeins brot úr sekúndu, og stundarminni getur aðeins tekið til nokkurra atriða í einu og það dofnar á nokkrum sekúndum ef ekkert er að gert. Lengdarminni er hins vegar óendanlegt í þeim skilningi að ekkert bendir til þess að sérstök efri mörk séu á magni þeirra upplýsinga sem þar er unnt að geyma. Líkön af minni sem vatnstanki eða háalofti sem rúmar aðeins tiltekinn fjölda atriða hafa ekki staðist prófanir. Svo virðist sem endalaust sé hægt að bæta við án þess að minni á eldra efni líði fyrir. Líklega er það þetta sem spyrjandi vísar til í spurningu sinni. En líka má nefna annað. Ofannefndar minnisrannsóknir hafa ekki skilað afdráttarlausum niðurstöðum um það nákvæmlega hvernig minnisskráning fer fram í heilanum. Það eru með öðrum orðum engin nákvæm líkön, hvorki úr lífeðlisfræði né sálfræði, sem taka af skarið um það hvernig minni verður til. Þó eru flestir sammála um að nám felist í einhvers konar örvun eða sambandi taugafruma í heilanum. Minni felur þá í sér sérstakt ástand þessara heilafruma, margra í senn. Sé það rétt, bregður það nokkru ljósi á áhyggjur manna af því að sá litli hlutur, mannsheili, sé plásslítill andspænis óendanleikanum. En hann er nefnilega ótrúlega flókin smíð.
Taugafrumur eru nær óendanlega margar.