Samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár hinn 1. janúar 2010 var fjöldi einstaklinga með lögheimili erlendis 67.988. Þetta er mjög há tala, sérstaklega miðað við að á sama tíma voru 317.630 búsettir á Íslandi, sem skýrist af því að þarna eru ekki aðeins íslenskir ríkisborgarar heldur einnig fólk erlendis frá sem flutt hefur tímabundið til landsins og átt hér lögheimili, til dæmis vegna vinnu, en flutt svo út aftur. Það má komast aðeins nær réttri tölu með því að skoða ríkisfang þessa fólks og hvar það er fætt. Af þessum 67.988 einstaklingum voru 36.202 með íslenskt ríkisfang og 31.786 með erlent ríkisfang. Ef litið er til þess hvar fólk er fætt þá voru 27.267 einstaklingar af þessum 67.988 fæddir á Íslandi og 40.721 fæddir í útlöndum. Mörgum hefur þótt Noregur fyrirheitna landið á síðustu misserum og Vísindavefurinn hefur fengið spurningar um fjölda Íslendinga þar. Það eru þó enn fleiri fyrirvarar sem þarf að gera ef skoða á fjölda Íslendinga í einstökum löndum þar sem upplýsingar um hvar erlendis fólk býr eru byggðar á tilkynningum um hvert það fór upphaflega. Það er ekki mikið um tilkynningar á flutningi milli landa erlendis, en þekkist þó. Í Noregi búa nú samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár 1. janúar 2010 7.488 „Íslendingar“. Af þeim eru einungis 4.647 fæddir á Íslandi. Samkvæmt Norsku hagstofunni voru 5.283 íslenskri ríkisborgar búsettir þar hinn 1. janúar 2010 og samkvæmt sömu heimild hafa 4.966 einstaklingar í Noregi íslenskan bakgrunn. Heimildir og mynd:
- Upplýsingar í tölvupósti frá stafsmönnum Hagstofu Íslands.
- Statistics Norway:
- Mynd: Telegraph.co.uk. Sótt 3.5.2010
- Hvað eru til margir Íslendingar, á Íslandi sem og öðrum löndum?
- Hvað búa margir Íslendingar í Noregi?
- Hvað búa samtals margir Íslendingar í öllum heiminum?
Brynjólfur Sigurjónsson og Ómar Harðarson á Mannfjölda- og manntalsdeild Hagstofu Íslands fá bestu þakkir fyrir upplýsingar og aðstoð við gerð þessa svars.