Í Bretlandi varð einnig breyting á vísbendingunum. Upphaflega voru bandarískar krossgátur samheitakrossgátur þar sem lausnarorðið var samheiti vísbendingarinnar og það sem stjórnaði erfiðleikastigi gátunnar var hversu auðvelt eða erfitt var að finna samheitið. Bretar þróuðu flóknar vísbendingar þar sem endurröðun stafa og ýmsar flóknar samsetningar komu í stað einfaldra samheitavísbendinga. Þetta form kallast cryptic crosswords á ensku. Helsti frumkvöðull Breta í krossgátugerð var Edward Powys Mather sem tók sér dulnafnið Torquemada eftir illræmdum dómara við spænska rannsóknarréttinn, en í Bretlandi er siður að krossgátuhöfundar taki sér dulnefni, oft eftir alræmdum sögufrægum einstaklingum. Torquemada byrjaði á því að hafa nokkrar flóknar vísbendingar í hverri krossgátu. Engar reglur voru um vísbendingarnar fyrr en krossgátuhöfundurinn Afrit (rétt nafn: A. F. Ritchie) setti fram grundvallarlögmálið að höfundur vísbendingar þurfi ekki að meina það sem hann segir, en að hann þurfi að segja það sem hann meinar, það er að segja þótt vísbendingin geti verið villandi þá verði hún að innihalda allar leiðbeiningar til að finna lausnarorðið. Það var svo Ximenes (rétt nafn: Derrick Macnutt), sem er nafn annars spænsk rannsóknardómara, sem setti niður reglur í bók sinni Ximenes on the Art of the Crossword. Krossgátur virðast hafa borist til Íslands frá Danmörku, en fyrsta krossgátan birtist þar árið 1924 í Berlingske Tidende og var í bandaríska stílnum. Elsta þekkta íslenska krossgátan er úr Lesbók Morgunblaðsins, frá 20. mars 1927. Höfundur hennar er óþekktur. Líklegast er að hún hafi verið gerð að danskri fyrirmynd af því hún inniheldur tvö dönsk orð. Næsta dæmi er úr Fálkanum 23. júní 1928 og þar er höfundur Sigurkarl Stefánsson. Telja verður líklegt að hann sé einnig höfundur krossgátunnar frá 1927, þar sem hann var við nám í Danmörku og kom heim 1928. Sigurkarl var einn helsti krossgátuhöfundur landsins um árabil. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvað er hægt að búa til margar mismunandi sudokuþrautir? eftir Mark Dukes.
- Hvað hét fyrsta teiknimyndasagan sem gefin var út í dagblaði? eftir Elínu Cartersdóttur
- Hvenær var fyrsta sjónvarpsútsendingin send út í heiminum og hvar? eftir Þórunni Jónsdóttur.
- Saga krossgátna á vefsíðu AskOxford.
- Grein Ásdísar Bergþórsdóttur um frumkvöðla í krossgátugerð.
- Krossgátur á vefsíðu Den Store Danske.
- Grein um sator-ferning á Wikipedia.org.
- Macnutt, D. S. Ximenes on the Art of the Crossword. Methuen 1961, endurútgefin af Swallowtail Books 2001.
- Mynd of Sator-ferningi: Wikimedia Commons - Sator Square at Oppède. (Sótt 20.6.2018). Birt undir leyfinu GNU 1.2.