Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHugvísindiTrúarbrögðEr það rétt í Da Vinci lyklinum að á kirkjuþingi hafi verið kosið um hvort Jesús væri dauðlegur maður eða heilagur?
Það er rétt að árið 325 var haldið kirkjuþing í bænum Níkeu í Litlu-Asíu sem kallað var saman til þess að kveða niður deilur í kirkjunni um samband Jesú og Guðs. Hins vegar er það ekki rétt sem fram kemur í bókinni um Da Vinci lykilinn að fram að þeim tíma hafi „fylgismenn Jesú litið svo á að hann væri dauðlegur spámaður... merkur og áhrifamikill en maður af holdi og blóði. Dauðlegur maður“ (Da Vinci lykillinn, 2004:252). Löngu fyrir þennan tíma trúðu kristnir menn á guðlegt eðli Jesú og kirkjuþingið í Níkeu var því alls enginn vendipunktur hvað það varðaði eins og nánar er greint frá hér á eftir.
Á fyrstu öldum kristninnar breiddist trúin hratt út um Rómaveldi. Sá sem hafði hvað mest áhrif á þróun trúarinnar var Páll postuli, er í fyrstu ofsótti kristna menn en snerist síðan sjálfur til trúar eftir að hafa mætt Jesú upprisnum að eigin sögn. Varð hann einn helsti túlkandi trúarinnar og kenningasmiður kirkjunnar. Mörg bréfa hans til hinna fyrstu kristnu safnaða er að finna í Nýja testamentinu. Á fyrstu öldum kristninnar var farið að kalla áhangendur Jesú „kristna“, það er þá sem fylgdu hinum smurða, Messíasi, Kristi. Um leið varð krossinn tákn kristinna manna, tákn um sigur Jesú á dauðanum og nálægð Guðs í heiminum.
Kristin trú breiddist ört út um Rómaveldi. Kirkjan var gerð að ríkiskirkju árið 381 en fram að þeim tíma þurfti hún á stundum að þola miklar ofsóknir. Reyndar var hún leyfð þegar árið 313. Á þessum öldum var lagður grunnurinn að kenningakerfi kirkjunnar. Kirkjufeðurnir svokölluðu rituðu um og túlkuðu kenningu Jesú og postulanna og rit þeirra urðu síðan grundvöllur játninga kirkjunnar. Kristnir menn þurftu að skilgreina trú sína í því fjölþjóðlega umhverfi sem rómverska ríkið var. Þar var að finna ýmis trúarbrögð sem vissulega höfðu áhrif á kirkjuna og voru í samkeppni við hana. Má þar sérstakleg nefna launhelgar móðurgyðjunnar Istar, Isis, Artemis eða Asteru en allt var það ein og sama gyðjan.
Til þess að gera út um ágreining í trúarefnum voru kölluð saman kirkjuþing, það fyrsta í Níkeu í Litlu-Asíu árið 325. Á þessum þingum þróaðist sú skilgreining sem byggði á hinni postullegu hefð, að Jesús hafa verið bæði Guð og maður í senn, Guð til þess að við mennirnir gætum og mættum tilbiðja hann, og maður til þess að hann gæti hjálpað okkur og endurreist samband okkar við Guð. Kenningin var grundvölluð á hugmynd Gamla testamentisins og hins Nýja um mannssoninn, Messías, sem væri í senn fulltrúi Guðs andspænis mönnum og fulltrúa manna andspænis Guði.
Níkeuþingið árið 325 kom fyrst og fremst saman til að ræða um skilgreininguna á guðdómlegu eðli Krist og veru Guðs. Í sviðsljósinu voru tveir menn, annars vegar Aþanasíus og hins vegar Aríus. Aþanasíus hélt fram fullum guðdómleika Jesú (eins og segir í Níkeujátningunni, að Jesús væri „Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum“) og fullri mennsku sömuleiðis („vegna vor mannanna og vorrar sáluhjálpar steig hann niður af himni, klæddist holdi fyrir heilagan anda af Maríu mey og gjörðist maður“ - þannig lýsir Níkeujátningin Jesú, sem guði og manni). Aríus stóð fastur á því að Jesús væri aðeins sköpuð vera, en æðst slíkra og að Kristur væri önnur himnesk vera ótengd Jesú. Bar Aþanasíus sigur úr býtum og kenning hans varð kenning kirkjunnar.
Fyrsta kirkjuþingið var haldið í Níkeu árið 325.
Á þessu þingi var samþykkt hin svokallaða Níkeujátning sem vitnað er í hér á undan og allar kirkjudeildir viðurkenna. Á fjórðu öldinni barðist keisarinn í Róm gegn Níkeujátningunni og lét handtaka biskupa og presta er héldu henni fram. Það voru söfnuðirnir sem stóðu vörð um kenninguna, kristin alþýða, og að lokum varð keisarinn að láta undan kröfum þeirra. Níkeujátninguna og frekari fróðleik um hana má finna á heimasíðu kirkjunnar Kirkjan.is.
Postullega trúarjátningin er höfuðjátning bæði rómversku og lútersku kirkjunnar, sú játning sem er höfð um hönd við skírn og myndar rammann að trúfræðslu innan safnaðanna. Hún er að forminu til ættuð frá áttundu öld en byggir á mun eldri hefð. Að stofni til er hún hin forna skírnarjátning safnaðarins í Róm (Symbolum romanum). Mjög svipuð játning var til þegar um aldamótin 200 í bók sem Hippolýtus páfi ritaði til þess að mótmæla tilteknum siðvenjum. Siðirnir sem hann lýsir eru mjög fornir. Gildir það líka um játninguna sem þar er sett fram í spurnarformi:
Trúir þú á Guð, föður almáttugan?
Trúir þú á Krist Jesú, son Guðs,
sem fæddist af heilögum anda og Maríu mey
og var krossfestur undir Pontíusi Pílatusi
og dó og var grafinn
og reis á þriðja degi lifandi upp frá dauðum
og steig upp til himna
og situr við hægri hönd föðurins
og mun koma að dæma lifendur og dauða?
Trúir þú á heilagan anda
og heilaga kirkju
og upprisu holdsins?
(Hippolytus, Traditio apostolorum 217 e.kr.)
Sést af þessu að þær játningar sem kirkjan sammæltist um eru ekki hugarsmíð 3. og 4. aldar manna, heldur byggjast þær á mun eldri grunni, allt frá postulunum sjálfum.
Að lokum má benda á að postullegu trúarjátninguna er að finna á heimasíðu kirkjunnar Kirkjan.is vilji lesendur rifja hana upp. Þeir sem vilja lesa meira um Níkeuþingin og það sem þar fór fram geta skoðað einhverjar af þeim fjölmörgu síðum á netinu þar sem um þau er fjallað. Upplýsingar má til dæmis finna með því að slá inn „Council of Nicea“ í leitarvélar.
Myndir:
Þórhallur Heimisson. „Er það rétt í Da Vinci lyklinum að á kirkjuþingi hafi verið kosið um hvort Jesús væri dauðlegur maður eða heilagur?“ Vísindavefurinn, 3. október 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5302.
Þórhallur Heimisson. (2005, 3. október). Er það rétt í Da Vinci lyklinum að á kirkjuþingi hafi verið kosið um hvort Jesús væri dauðlegur maður eða heilagur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5302
Þórhallur Heimisson. „Er það rétt í Da Vinci lyklinum að á kirkjuþingi hafi verið kosið um hvort Jesús væri dauðlegur maður eða heilagur?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5302>.