Sjónskertur: Einstaklingur telst sjónskertur ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón hans er minni en 30% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 20 gráðu sjónsvið, eða ef starfrænt mat sýnir erfiðleika vegna sjónskerðingar með lestur 10 punkta leturs með venjulegum sjónglerjum. Blindur: Einstaklingur telst blindur ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón hans er minni en 5%, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 10 gráðu sjónsvið.Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) eru lögblindir einstaklingar þeir sem hafa 10% eða minni sjón eða sjónsvið þrengra en 10 gráður. Augnlæknar skipta gjarnan þeim sem eru sjónskertir eða lögblindir niður í fimm flokka þar sem þeir sem eru lögblindir skiptast í þrjá af þessum flokkum; þeir sem hafa einhverja sjón, þeir sem hafa einhverja birtuskynjun og þeir sem hafa enga birtuskynjun. Niðurstöður sjónmælinga þar sem skoðað er hversu smáa stafi fólk getur lesið eru gefnar upp sem hlutfall (almennt brot) þar sem fyrir ofan strik kemur mælingarfjarlægðin en fyrir neðan strik sú fjarlægð sem eðlilega sjáandi einstaklingar greina viðkomandi stafi í. Mörkin fyrir sjónskerðingu eru 6/18 (33% sjón) en sambærileg mörk fyrir lögblindu eru 6/60, sem er 10% sjón. Mælingar miðast alltaf við að notuð séu bestu fáanleg gleraugu. Þetta þýðir að einstaklingur sem mælist með 6/60 sér í 6 metra fjarlægð það sem sá sem hefur fulla sjón sér í 60 metra fjarlægð. Heimildir og mynd:
- Lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
- Blinda og sjónskerðing - Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins.
- Um Miðstöðina | Þjónustu og þekkingarmiðstöðin.
- Blinda og alvarleg sjónskerðing - persona.is.
- Mynd: SymbolEyes - A Snellen chart is an eye chart used by eye care. (Sótt 14. 10. 2013).
Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað er skilgreiningin á löglegri blindu?
Kristinn Halldór Einarsson hjá Blindrafélaginu fær þakkir fyrir ábendingar og aðstoð við gerð þessa svars.