Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hermannaveiki orsakast af bakteríu sem kallast Legionella pneumophila. Sýking af völdum þessarar bakteríu greindist fyrst eftir ráðstefnu gamalla bandarískra hermanna sem haldin var á hóteli í Fíladelfíu árið 1976. Hátt í 200 manns veiktust og margir dóu. Við krufningu fannst bakterían í sýni frá lungum. Nú eru þekktar yfir 40 tegundir Legíónella–bakteríunnar en einungis fáar þeirra eru sjúkdómsvaldandi í mönnum.
Náttúruleg heimkynni bakteríunnar eru í vatni, hún þolir hitastig frá 0–63°C en kjörhitastig hennar er um það bil 30–40°C. Legíónella-bakterían getur lifað árum saman í vatnstönkum við 2–8°C og sest oft að í lokuðum endum pípulagna stórra bygginga þar sem vatnið stendur kyrrt og hitastig er ekki hátt.
Fullfrískir ungir einstaklingar geta fengið bakteríuna í öndunarvegi án þess að veikjast og er hún hættulítil í þeim tilvikum. Alvarleg veikindi verða yfirleitt hjá einstaklingum með undirliggjandi áhættuþætti en þeir eru helstir hár aldur, reykingar, langvinnir lungnasjúkdómar, ónæmisskerðing, áfengissýki og nýrnabilun.
Sýking af völdum Legíónella birtist í tveimur sjúkdómsmyndum, annars vegar sem svokallaður „Pontiac fever” (sem ekki hefur fengið íslenskt heiti að því er best er vitað) og hins vegar sem hermannaveiki (Legionnaires disease).
Legionella pneumophila.
Pontiac fever getur komið fram hjá ungu fólki án undirliggjandi sjúkdóma. Sýkingunni fylgja bráð einkenni sem líkjast flensu svo sem beinverkir, hiti, hrollur og höfuðverkur en ekki lungnabólga. Einkennin ganga yfir á 2–5 dögum án meðferðar. Meðgöngutími sýkingarinnar, það er tími frá smiti þar til einkenna verður vart, er 1–2 sólarhringar.
Helstu einkenni hermannaveiki eru hiti, hrollur, hósti, beinverkir, höfuðverkur, lystarleysi og stundum niðurgangur. Lungnabólga er alltaf hluti af sjúkdómsmyndinni. Gangur sjúkdómsins er misslæmur og dauðsföll verða í 5–30% tilfella. Meðgöngutími hermannaveiki er 2–10 dagar.
Legíónella-bakterían smitast þegar svifúði (aerosol) myndast frá vatnsleiðslum eða vatnstönkum. Slík svifúðamyndun á sér oftast stað út frá loftkælingum og kæliturnum sem ætlaðir eru til kælingar í stóru iðnaðarhúsnæði, hótelum og verslunarmiðstöðvum. Vitað er um tilfelli eftir svifúðamyndun út frá heitum nuddpottum og gufu- og rakagjafa í grænmetisverslun. Sjúkrahússýkingar hjá inniliggjandi sjúklingum hafa einnig komið upp. Smit manna á milli á sér hins vegar ekki stað.
Mismunandi aðferðir eru notaðar til greiningar á Legíónella-sýkingu, en þær eru:
Greining á mótefnavökum í þvagi.
Loftvegasýni til greiningar á erfðaefni bakteríunnar (PCR).
Sýni frá neðri loftvegum sett í ræktun.
Mæling á mótefnum í blóði.
Engin þörf er á meðferð gegn Pontiac fever því að sjúkdómurinn gengur yfir án meðferðar. Hermannaveiki er hins vegar alvarlegur sjúkdómur sem ávallt ber að meðhöndla með sýklalyfjum og í mörgum tilfellum er þörf á sjúkrahúslegu.
Hægt er að beita ýmsum forvörnum gegn smiti. Samkvæmt lögum ber að tilkynna Legíónella pneumophila sýkingu til sóttvarnalæknis. Við grun um tilfelli af innlendum uppruna er mikilvægt að framkvæma rannsókn til að komast að uppruna smitsins og taka sýni frá hugsanlegum smitstað. Ekki er til bóluefni gegn sjúkdómnum.
Varðandi aðrar fyrirbyggjandi aðferðir má nefna að vatnsleiðslur stórra bygginga skulu vera þannig uppbyggðar að vatn standi ekki í leiðslunum. Sé hitastig vatns yfir 65°C dregur úr fjölda baktería í vatninu. Fylgja ber ákveðnum verklagsreglum á sjúkrahúsum um meðferð sjúklinga í öndunarvélum og hreinsun á friðarpípum. Klórblöndun vatns ber hins vegar lítinn árangur.
Þess má að lokum geta að sýkingar af völdum Legíónella-bakteríunnar eru ekki algengar á Íslandi. Árlega greinast hérlendis 2–3 tilfelli af hermannaveiki, ýmist af innlendum uppruna eða eftir dvöl á hótelum erlendis.
Þetta svar er af heimasíðu Landlæknisembættisins og birt með góðfúslegu leyfi.
Mynd:AstraZeneca AS
Vísindavefnum hafa borist nokkrar spurningar um hermannaveiki, meðal annars:
Hvað er hermannaveiki og hvernig lýsir hún sér?
Er hægt að lækna hermannaveiki?
Er hermannaveiki hættuleg?
Við hvaða aðstæður þrífst hermannaveiki
Aðrir spyrjendur eru: Jóhanna Einarsdóttir, Rósey Reynisdóttir, Erlingur Guðbjörnsson, Helgi Vigfússon og Elín Sigurðardóttir.