Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sperrt langatöng og krepptur hnefi mynda saman eitt kunnasta móðgunartákn sem til er nú á dögum. Þótt fingurinn sé augljóst reðurtákn ætti skírskotunin í hulinn líkamspart út af fyrir sig ekki að móðga neinn eða reita til reiði; tilhugsunin um að önnur hver manneskja sé með typpi kemur fólki ekki úr jafnvægi á okkar upplýstu tímum. Hin raunverulega ógnun sem felst í tákninu byggist frekar á dýpri skírskotun. Hana finnum við í dýraríkinu, meðal annars hjá öðrum prímötum, okkar nánustu ættingjum.
Uppruni og merking
Það er vel þekkt hjá ýmsum öpum að ráðandi karlapi hafi í frammi kynferðislega tilburði í því skyni að sýna fram á vald sitt, til að mynda með því að hnykkja mjöðm sinni utan í kvendýrið nokkrum sinnum án þess að nein snerting kynfæra eigi sér stað. Þessa hegðun getur apinn líka átt til að sýna gagnvart karlkyns keppinautum sínum. Með því að koma fram við þá eins og kvenapa undirstrikar hann skilmerkilega hver það er sem ræður ferðinni. Þessa tilburði er freistandi að yfirfæra á okkur mennina sem flíkum reðurtákni okkar, fingrinum, í sambærilegum tilgangi. Með honum einum saman náum við að ögra á táknrænan hátt með því að sýna skeytingarleysi og lítilsvirðingu.
Puttinn er, þrátt fyrir reðurtáknmynd sína, ekki bein kynferðisleg ógnun heldur ögrun sem felur í sér almennt skeytingarleysi. Þessu til stuðnings má nefna að notkun puttans einskorðast ekki við aðstæður þar sem kynferði kemur við sögu; honum er flíkað hvar og hvenær sem er. Í öðru lagi má nefna að ögrunin er algerlega ókynbundin. Konur gefa fingurinn til jafns við karla sem tákn um sama skýra viðhorf: „Þú ógnar mér ekki“ eða einfaldlega „Eigðu þig!“
Saga
Ef marka má frásagnir hefur „fingurinn“ verið notaður til að ögra í vestrænu samfélagi í að minnsta kosti tvöþúsund ár. Fyrstu skýru vísanirnar í ögrandi beitingu löngutangar má finna í leikritagerð Forn-Grikkja. Rómverjar þekktu líka vel til táknsins og kölluðu löngutöngina „ósæmilega fingurinn“ eða digitus impudicus. Calígúla keisari á að hafa notað hann markvisst í ögrunarskyni og rétt fingurinn fram þegar höndin á honum var kysst.
Fingurinn ósæmilegi var áfram vel þekkt fyrirbæri er fram liðu stundir en minna bar þó á honum á miðöldum. Árið 1644 kom hins vegar athyglisvert rit um táknmál handanna ætlað heyrnarlausum. Bókin var eftir John Buwell og hét Chirologica: Of the Naturall Language of the Hande. Þar var skýrt tekið fram að langatöng væri notuð sem táknmynd fyrirlitningar. Útskýringunni fylgdi mynd sem tók af allan vafa um að hér væri á ferðinni fingurinn sögufrægi í allri sinni dýrð.
Mynd úr bók um táknmál handanna frá 1644. Latneski textinn þýðir "ég móðga, sýni óvirðingu."
Skýrara dæmi um notkun fingursins var tæpast að finna fyrr en á miðri nítjándu öld en þá gaf ljósmyndatæknin tákninu byr undir báða vængi. Síðan þá hefur honum verið flíkað frjálslega hvenær sem skapið hleypur með fólk í gönur. Í Bandaríkjunum er táknið svo nátengt þjóðvegamenningu landsins að fingurinn hefur öðlast vafasaman virðingarsess sem „the expressway digit“ eða hraðbrautarputtinn.
Sambærileg tákn
Reikna má með að amerísk afþreyingarmenning hafi gert sitt til að auka vinsældir táknsins á alþjóðavísu. Engu að síður eru í notkun fjölmörg sambærileg móðgunartákn hér og þar í heiminum. Arabar hafa til að mynda þróað sína eigin útgáfu, nánast með öfugum formerkjum, þar sem löngutöng er beint niður í stað þess að láta hana rísa upp. Í þessari útgáfu merkisins er handarbakinu snúið upp og fingurnir í kring vísa fram á við til aðgreiningar frá lafandi löngutöng.
Annað vel þekkt afbrigði reðurtáknsins má finna í Suður-Evrópu. Það kemur ef til vill ekki á óvart að við Miðjarðarhafið (þar sem skapsveiflur virðast vera meiri en gengur og gerist norðar í álfunni) eru reðurtáknin mun stærri og kraftmeiri. Þar fer allur handleggurinn í hlutverk reðursins. Sveigðum handleggnum er rykkt upp á við (nokkuð sem Brasilíumenn kalla „bananann“) og spenntum hnúa snúið í átt að viðtakanda móðgunarinnar. Hnefinn er sums staðar látinn nötra átakanlega (það þykir einkenna Júgóslavíu öðru fremur). Víða er lögð aukin áhersla á þetta öfluga tákn með því að grípa kröftuglega á móti upphandleggnum með hinni hendinni. Þessi þrýstingur á móti stefnu reðurtáknsins gerir sitt til að magna upp ofbeldisfulla myndlíkinguna.
Einhverra hluta vegna hefur ekkert af þessum táknum náð fótfestu á Bretlandseyjum. Bretar nota sitt eigið tákn en í því eru notaðir tveir fingur í staðinn fyrir einn og standa þeir gleiðir, líkt og bókstafurinn V. Ólíkt staka fingrinum (sem notaður er víðast í Norður-Evrópu og Ameríku) er langsótt að þetta sé reðurtákn (aðeins kengúran hefur klofið typpi). Líklegra er talið að táknið vísi til kynfæra kvenna. Það er útskýrt með margvíslegum hætti, fingurnir þykja minna á útglennta fætur, þríhyrningslaga skapahár og dæmigerða stöðu sjálfra fingranna við kynörvun svo að dæmi séu nefnd. Svipmikið táknið hefur auðveldlega haldið velli gagnvart staka fingrinum sem notaður er í flestum öðrum Evrópulöndum og Ameríku.
Winston Churchill sýnir sigurtáknið sem hann gerði frægt.
Tvífingurstákn er öllu vandasamara í notkun en hin sem nefnd hafa verið því þess þarf sérstaklega að gæta að handarbakið snúi í áttina að viðtakandanum. Ef lófinn snýr út á við nær móðgunin engan veginn tilætluðum árangri því þá myndar höndin keimlíkt tákn um „sigur“ (e. victory) sem Winston Churchill gerði vinsælt í áróðursskyni á stríðsárunum og vísar í bókstafinn „v“. Móðgunartáknið er hins vegar mun eldra, en er nær eingöngu bundið við Bretlandseyjar og getur því oft misskilist annars staðar í heiminum. Af þessu dæmi, ásamt öðru sem hér hefur verið tíundað, má ráða að táknrænt vopnabúr reiða mannsins er bæði myndarlegt og fjölbreytt en að sama skapi vandmeðfarið.
Heimildir og frekara lesefniBækur
Morris, D. Gestures: A new look at the human animal, 1980, Stein & Day Pub.
Morris, D. Manwatching: A field guide to human behavior, H. N. Abrams, 1977.
Armstrong, N. og Wagner, M. Field guide to gestures: How to identify and interpret virtually every gesture known to man, Quirk Books, 2003.
Axtell, R. E. Gestures: The do´s and taboos of body language around the world, Wiley, 1997.
Þorsteinn G. Berghreinsson. „Hver er uppruni og merking þess að 'gefa einhverjum fingurinn'?“ Vísindavefurinn, 26. september 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5287.
Þorsteinn G. Berghreinsson. (2005, 26. september). Hver er uppruni og merking þess að 'gefa einhverjum fingurinn'? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5287
Þorsteinn G. Berghreinsson. „Hver er uppruni og merking þess að 'gefa einhverjum fingurinn'?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5287>.