- Samfélagsrök – Vísað er til þess hvernig þjóðin greinist í trúfélög og þá einkum til hlutfalls þeirra sem skráðir eru í kristin trúfélög á Íslandi, en það er mjög hátt (um 94%, þar af um 85% í Þjóðkirkjuna). Það er síðan notað sem eitt af rökunum fyrir því að kristin fræði séu kennd í grunnskólum og að þau séu veigamesti þáttur trúarbragðakennslu. Auk þess eiga mörg þau lífsgildi sem mótað hafa íslenskt samfélag sér kristnar rætur.
- Menningarrök – Íslensk saga og menning hefur mótast mjög af kristni. Því er litið á kristinfræðikennsluna sem eina af forsendunum fyrir læsi á íslenska og jafnframt vestræna menningu. Því er haldið fram að saga og menning þjóðarinnar og Vesturlanda almennt verði vart skilin án þekkingar á kristinni trú, Biblíunni og siðferðislegum boðskap hennar.
- Þroskarök – Viðfangsefni greinarinnar kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði eru talin mikilvægur þáttur í mótun heilbrigðrar sjálfsmyndar. Heildstætt lífsviðhorf og skilningur á sjálfum sér sem einstaklingi og sem hluta af stærri heild skiptir hér máli; ennfremur færnin til að takast á við hið trúarlega svið, geta sett sig í spor annarra og tekið ábyrga og ígrundaða afstöðu til viðhorfa og lífsgilda.
- Uppeldisrök – Bent er á að námsgreininni sé meðal annars ætlað að miðla grundvallargildum samfélagsins. Siðfræðiþátturinn og siðgæðisuppeldið er hér sett í brennidepil ásamt því að vísa til 2. gr. grunnskólalaga um að starfshættir skólans skuli mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.
- Þekkingarrök – Lögð er áhersla á að kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði miðli nemendum þekkingu á eigin rótum og því samfélagi sem þeir eru hluti af. Jafnframt auka viðfangsefni greinarinnar skilning á ólíkum trúarbrögðum og lífsviðhorfum. Það stuðlar meðal annars að umburðarlyndi og víðsýni. (Sjá Aðalnámskrá grunnskóla, kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði, s. 3).
- Trúfrelsisrök – Talið er óframkvæmanlegt að kenna um kristni og önnur trúarbrögð á hlutlausan hátt. Í því efni er gjarnan vísað til trúfrelsis sem mikilvægs þáttar mannréttinda og ákvæðis stjórnarskrárinnar þar um (sbr. 63.-64. gr.). Kristin fræði eða trúarbragðafræðsla eigi því ekki heima í opinberum grunnskólum. Hér má þó benda á að huga þarf að merkingu hugtaksins trúfrelsi í þessu sambandi. Kennsla um kristni eða önnur trúarbrögð í skólum þarf ekki að stangast á við trúfrelsi. Hér þarf fyrst og fremst að hafa hugfast hlutverk skólans sem fræðslustofnun og greina það frá trúboðshlutverki kirkjunnar og annarra trúfélaga. Skólanum er ætlað að fræða um trúarbrögðin en kirkju og trúfélögum að boða trú.
- Samfélagsrök – Vísað er til vaxandi fjölmenningar og fjölhyggju og þess að hér á landi býr í auknum mæli fólk með ólíkan trúarlegan bakgrunn og mismunandi trúar- og lífsskoðanir. Þess vegna þurfi að gera öllum trúarbrögðum og lífsviðhorfum jafnhátt undir höfði í kennslunni ef kenna á þessi fræði í grunnskólum.
Hér má benda á að fjölhyggjan og fjölmenningin sem slík kallar ekki sjálfkrafa á að öllum trúarbrögðum sé ætlað jafnmikið svigrúm í kennslu í grunnskólum, enda kann það að reynast erfitt í framkvæmd. Mikilvægara er að virða rétt fólks til að hafa ólíkar skoðanir og sinna fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð, eftir því sem á við, á vandaðan hátt og af alúð og heilindum. Í þessu samband má gjarnan minna á umburðarlyndishugtakið og hvernig það er skilgreint skv. almennum hluta Aðalnámskrár grunnskóla:
Það verður að ætla öllum rétt til sjálfstæðra skoðana og tækifæri til að tjá þær og reyna að vinna þeim fylgi, að því tilskyldu að það sé gert á heiðarlegan hátt og réttur annarra til hins sama virtur (s.18).
- Religion. Fachbereich Religion.
- Anne's easter religious gifs & backgrounds. Anne's Place.