Af hverju heitir Alþingi Alþingi en ekki Alþing? Þ.e. af hverju þessi -i ending?Orðið þing beygðist til forna eins og í dag, í þágufalli þingi og í eignarfalli þings. Í fornnorrænni málfræði eftir Adolf Noreen er ekki minnst á hliðarmyndina þingi, aðeins þing. Í fornmálsorðabók Johans Fritzners er hvorugkynsmyndin þingi ekki fletta en aftur á móti má finna flettuna alþingi og að -þingi komi fyrir í orðunum alþingi og lögþingi, það er sem síðari samsetningarliður (1886: 50). Í fornmálsorðabók Eiríks Jónssonar (1863:19) eru gefnar báðar myndirnar alþing og alþingi og sagt að eignarfall eintölu endi á -is. Í íslensk-enskri orðabók Cleasbys og Guðbrands Vigfússonar (1975:18) er alþing sögð nútímamynd hins eldra orðs alþingi þar sem -i hafi verið fellt brott. Í fornmálsorðabók þeirri sem unnið er að í Kaupmannahöfn (1995: 378–379) eru dæmi fyrst og fremst um alþingi og samsetningar allar eru með alþingis-. Orðið alþingi er samsett úr forliðnum al- og þing, það er 'þing fyrir alla, almannaþing'. Ef til vill má hugsa sér að algeng sambönd eins og á alþingi, frá alþingi, þar sem -i er beygingarending, hafi haft áhrif í öðrum föllum eða að hvorugkynsorðmyndin alþingi hafi verið hin ríkjandi en alþing verið mynduð með þing í huga. Heimildir og mynd:
- Adolf Noreen. 1923. Altisländische Grammatik. Halle.
- Eiríkur Jónsson. Oldnordisk ordbog. Kjöbenhavn.
- Johan Frizner. 1886. Ordbog over Det gamle norske Sprog. I. Kristiania.
- Richard Cleasby og Guðbrandur Vigfússon. 1975. An Icelandic-English Dictionary. Önnur útgáfa ljósprentuð. Oxford.
- Mynd: Althingishusid - Althing - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 13.11.2014).
- Hvers vegna heitir Alþingi ekki Alþing? Hvað er þetta i að gera þarna í endann?
- Af hverju er heiti alþingis dregið?