Eins og af þessu má ráða var Reynir Pétur mikill göngugarpur og ekki endilega raunhæft að ætla hverjum sem er að ganga umhverfis landið á aðeins mánuði eins og hann gerði. Hringvegurinn hefur að vísu styst nokkuð frá árinu 1985 en engu að síður þarf að ganga nokkuð rösklega til þess að klára hringinn á sama tíma og Reynir Pétur gerði. Oft er miðað við að gönguhraði sé um það bil 5 km á hverja klukkustund. Miðað við þann hraða og að ganga 7 klukkustundir á dag eins og gert er ráð fyrir í spurningunni kemst göngumaðurinn 35 km á dag. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hringvegurinn eða þjóðvegur númer 1 nú 1333,41 km að lengd. Miðað við þessa vegalengd og gönguhraða þá tekur það 38 daga að ganga hringveginn. Hér er reyndar ekki tekið tillit til þess að gangandi umferð er ekki leyfð í Hvalfjarðargöngunum. Gangandi maður þarf því að fara Hvalfjörðinn og við það bætast um 42 km við eða rúmlega einn dagur. Gangan tæki því rúma 39 daga.
Hringvegurinn er ekki lengsta leiðin sem hægt er að fara umhverfis landið. Hann sneiðir hjá ýmsum svæðum eins og sést á kortinu hér fyrir ofan. Sem dæmi má nefna að bæði Vestfjörðum og Snæfellsnesi er alveg sleppt og á Norðausturlandi liggur vegurinn töluvert langt inn í landi. Árið 2005 lagði Jón Eggert Guðmundsson af stað í Strandvegagönguna og var hún farin til styrktar Krabbameinsfélaginu. Ekki er vitað til þess að nokkur annar hafi gengið lengri vegalengd umhverfis landið, en hans markmið var að ganga því sem næst alla strandvegi landsins en ekki halda sig við þjóðveg númer 1. Hann lauk göngunni á tveimur sumrum, fyrra árið gekk hann frá Hafnarfirði til Egilsstaða og lagði að baki tæplega 990 km. Sumarið 2006 lauk hann svo hringnum umhverfis landið og hafði þá gengið 3.446 km. Ekki tókst að afla upplýsinga um nákvæmlega hversu marga daga það tók Jón að ljúka þessari göngu en ef hann hefur gengið 35 km á dag eins og forsendurnar sem notaðar eru hér þá tekur það rúmlega 98 daga að fara þessa vegalengd. Heimildir og myndir:
- Illugi Jökulsson. 2002. Ísland í aldanna rás 1976-2000. Reykjavík, JPV útgáfan.
- Strandvegagangan 2006. Skoðað 19. 5. 2009
- Vegagerðin - Sigurður Björn Reynisson. Upplýsingar með tölvupósti.
- Mynd af Reyni Pétri: rosaadalsteinsdottir.blog.is. Sótt 19. 5. 2009.
- Kort af þjóðvegi 1: Wikimedia Commons. Sótt 19. 5. 2009
Ég og vinir mínir ætlum að ganga í kringum Ísland og ég var að velta því fyrir mér hvað það tæki langan tíma. Hugmyndin er að ganga um það bil 7 klst. á dag eða þannig séð 10 en þá væru 3 klukkutímar sem við mundum hvíla okkur á milli. Spurningin er sem sagt hvort þetta er hægt og ef svo er, hvað tæki það langan tíma?