- Á efri hluta bringu (e. thoracopagus) - 35-40% tilfella.
- Á neðri hluta bringu (e. omphalopagus) - 34% tilfella.
- Á bakhluta, oftast rassi (e. pygopagus) - 19% tilfella.
- Á höfði með aðskilda búka (e. cephalopagus) - um 5% tilfella. Í þessum hópi eru tilfelli þar sem bæði höfuð og bringur eru samvaxnar.
- Á höfuðkúpu (e. craniopagus) - 2% tilfella. Í sumum þessara tilfella er önnur höfuðkúpan vanþroskuð.
Ef við gefum okkur að þetta tilbúna dæmi, sem lýst er í spurningunni, kæmi upp þá yrði án efa vandasamt að leysa úr því. Fyrir það fyrsta þyrfti að ákvarða hvor tvíburanna hefði gerst brotlegur við lögin og hvort hinn tvíburinn hefði verið alveg saklaus af brotinu eða til dæmis meðsekur af því að hann hafi vitað af því. Ef dómstóll kæmist að þeirri niðurstöðu að annar væri saklaus þyrfti að ákvarða refsingu fyrir hinn seka og að lokum taka ákvörðun um hvernig refsingin yrði útfærð í ljósi hinna sérstöku aðstæðna. Vandamálið sem við blasir er að með refsingu eins og til dæmis fangelsisvist, þá yrði hinum saklausa tvíbura refsað í leiðinni. Í okkar réttarkerfi er byggt á þeirri grunnreglu að saklaust fólk eigi aldrei að þurfa að fara í fangelsi og þar af leiðandi er vandséð hvernig unnt væri að setja báða síamstvíburana í fangelsi fyrir glæp sem aðeins annar þeirra framdi. Hinn seki tvíburi gæti aftur á móti þurft að sæta einhvers konar eftirliti eða meðferð í staðinn og hinn yrði þá að gera sér að góðu að taka þátt í henni líka. Mál sem þetta er að mörgu leyti handan við laganna bókstaf og hvergi kemur fram í texta laganna sérstaklega hvernig taka eigi á málum sem þessum. Víst er að dómari sem fengi mál sem þetta til meðferðar yrði að beita grunnreglum lögfræðinnar og almennri skynsemi við að leysa úr því. Þá kæmi einnig til skoðunar hvernig líkamlegt ástand slíkra tvíbura væri og hvort það væri yfirhöfuð verjandi að setja þá í fangelsi, þótt þeir væru báðir sekir um glæp, enda þarf að fylgjast náið með heilsufari og líðan síamstvíbura. Allt þetta yrði að taka til athugunar við niðurstöðu í slíku dómsmáli. Þess má að lokum geta að sambærileg spurning var til umfjöllunar í myndinni Chained for Life, sem var gerð árið 1951 og fjallaði um síamstvíburana Dorothy og Vivian Hamilton (leiknar af símastvíburunum Daisy og Violet Hilton) en önnur þeirra fremur morð í myndinni og er ákærð. Myndin endar í réttarsal þar sem dómari reynir að átta sig á því hvernig leysa eigi úr málinu. Lausnin kemur þó ekki fram í myndinni heldur er látið nægja að spyrja áhorfendur í lokin hvað þeim finnist rétt að gera! Heimildir og mynd:
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Ef að annar síamstvíburi myndi fremja glæp (svo sem morð) en hinn tvíburinn hefði ekkert með það að gera, hvernig væri farið að því að refsa glæpamanninum en ekki saklausa tvíburanum?