Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í reynd teljast 43 tegundir til ættbálks (e. tribe) svokallaðra svifíkorna sem á fræðimáli nefnist Pteromyini og heyrir undir ætt íkorna (Sciuridae). Samkvæmt heimildum eru svifíkornar flokkaðir niður í 15 ættkvíslir (e. genus).
Tegundaríkust þessara ættkvísla er ættkvísl pokasvifíkorna (Petaurista) en til hennar teljast átta tegundir. Þær má finna í þéttum laufskógum Austur-Asíu og þeirra á meðal eru tegundir eins og pokaflugíkorninn (Petaurus breviceps) og rauði risaflugíkorninn (Petaurista petaurista), sem finnst á útbreiddu svæði allt frá Norður-Afganistan, um Pakistan og Nepal, og allt austur til Taívan.
Flestar tegundir svifíkorna lifa villtar í austurhluta Asíu aðallega í þéttum skógum Indókína og Kína. Aðeins ein tegund finnst í Evrópu en það er síberíski svifíkorninn (Pteromys volans). Hann teygir útbreiðslu sína frá Finnlandi og Eystrasaltslöndunum austur um rússnesku barrskóganna allt til Kyrrahafsstranda Rússlands.
Síberíski svifíkorninn er sennilega þekktastur allra svifíkorna. Hann er lítill vexti með áberandi stór og svört augu og gráleitan feld.
Hér verður nánar fjallað um síberíska svifíkornann þar sem sú tegund er sennilega þekktust allra tegunda svifíkorna, þá sérstaklega í hugum Íslendinga sem og annarra Evrópubúa.
Síberíski svifíkorninn er um 150 grömm að þyngd og eru kvendýrin litlu stærri en karldýrin. Þeir eru aðeins um að 20 cm á lengd auk um 11 cm langs skotts. Augu svifíkorna eru hlutfallslega stór og eru síberískir svifíkornar með áberandi svört augu. Feldurinn er gráleitur en kviðsvæðið er ljósara á lit.
Það sem er mest einkennandi í vaxtarlagi svifíkorna er þunn og loðin skinnhimna, eða svokallað patagium, sem teygir sig milli fram- og afturfóta íkornans. Með því að breiða út fótleggina og strekkja á þessari himnu getur svifíkorninn svifið milli trjáa, oft ótrúlega langt. Þróunarfræðilega má segja að þetta sé mikill kostur því með þessum hætti þurfa þeir ekki að fara niður á jörðina þar sem mörg rándýr eru á ferli. Þetta veitir þó ekki algjöra vörn gegn afræningjum en helstu óvinir svifíkornans eru ýmsar tegundir vísla, uglur og kettir.
Síberíski svifíkorninn getur svifið töluverðar vegalengdir vegna þunnrar skinnhimnu milli fram- og afturfóta sem hann breiðir út eins og vængi.
Rannsóknir hafa sýnt að í Finnlandi hefst æxlunartími svifíkorna í lok mars. Dýrin gera sér þá hreiður í holum sem spætur hafa gert í trjástofna. Eftir að íkorninn hefur helgað sér holu og makast byrjar hann að klæða holuna að innan með mjúkum jurtum, oftast fléttum og mosa. Kvendýrin gjóta frá einum til sex ungum en rannsóknir benda til að fjöldinn fari mjög eftir fæðuframboði á vorin. Þegar nóg er af æti eru meiri líkur á stóru goti. Oftast gjóta svifíkornar tvívegis yfir sumarið. Meðgöngutíminn er um 4 vikur og er fyrra gotið venjulega í maí og það seinna í lok júní eða snemma í júlí. Í góðu árferði getur viðkoman því verið mikil þar sem kvendýrin geta komið upp allt að 12 ungum. Afföll eru hins vegar veruleg og aðeins lítill hluti unga lifir af fyrsta árið.
Síberíski svifíkorninn er næturdýr. Á sumrin er hann virkastur um hálftíma til klukkutíma eftir sólsetur en fer að hafa hægar um sig við fyrstu geisla sólar. Svifíkornar leggjast ekki í dvala yfir vetrartímann þrátt fyrir mikla kulda. Þess í stað halda þeir að mestu til í holum sínum og sofa í lotum. Þeir geta sofið samfleytt í marga daga í senn, jafnvel allt að 7 daga í einu.
Svifíkornar lifa að mestu á plöntum. Á vorin éta þeir nýjabrum plantna, svo sem nývöxt trjáa, auk þess sem þeir éta ber og fræ þegar líða tekur á sumarið. Á veturna eru hnetur meginuppistaðan í fæðunni auk köngla sem mikið er af á síberíska barrskógabeltinu. Gamlar sovéskar heimildir frá 7. áratug síðustu aldar segja frá því að svifíkornar leitist við að éta egg og fuglsunga. Engar rannsóknir hafa hinsvegar staðfest þessar frásagnir.
Síberíski svifíkorninn býr sér til hreiður í holum sem spætur hafa myndað í trjáboli.
Það getur verið afar sérstök upplifun að að verða vitni af “flugi” svifíkorna milli hárra trjáa í gömlum skógum barrskógabeltisins. Þegar þeir hefja sig til flugs þá breiða þeir út framlappirnar, spyrna sér í trjágrein og halda afturfótunum sem næst rófunni. Þannig geta þeir svifið hljóðlaust hátt fyrir ofan skógarbotninn eins og framandlegar verur.
Því miður hefur síberíska svifíkornanum fækkað nokkuð á undanförnum áratugum vegna þess að búsvæði þeirra hafa raskast. Er það einkum skógarhögg sem spillt hefur heimkynnum þeirra, en svifíkorninn er afar háður gömlu skóglendi sem því miður hefur gengið verulega á. Síberíski svifíkorninn er þó ekki enn sem komið er talinn í verulegri útrýmingarhættu sökum þess hversu útbreiddur hann er. Haldi hinsvegar áfram svo sem horfir er þess ekki langt að bíða að framtíð þessarar tegundar verði teflt í tvísýnu.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Nowak, R. 1991. Walker's Mammals of the World. Fifth Edition. John Hopkins University Press, Baltimore.
Ognev, S. 1966. Mammals of the U.S.S.R. and Adjacent Countries. Israel Program for Scientific Translations Ltd., Jerusalem.
Thorington, R. W. Jr. and R. S. Hoffman. 2005. Family Sciuridae. Pp. 754-818 in Mammal Species of the World a Taxonomic and Geographic Reference. D. E. Wilson and D. M. Reeder eds. Johns Hopkins University Press, Baltimore.
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um svifíkorna?“ Vísindavefurinn, 3. júní 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=52482.
Jón Már Halldórsson. (2009, 3. júní). Hvað getið þið sagt mér um svifíkorna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=52482
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um svifíkorna?“ Vísindavefurinn. 3. jún. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=52482>.