Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar Evrópumenn komu til Góðrarvonarhöfða, syðsta hluta Afríku, árið 1652 voru hestar (Equus caballus) fyrstu húsdýrin sem þeir fluttu með sér. Haft var eftir Hollendingnum Jan van Riebeeck (1619-1677) sem var í forsvari leiðangursins að hross væru landnemum jafn mikilvæg og brauð.
Á þessum tíma þekktust hestar ekki í sunnanverðri Afríku en þeir höfðu borist til Norður- og Vestur-Afríku á 6. öld eftir Krist. Hins vegar sáu landnemarnir fjöldann allan af villtum hestum, sem í dag nefnast sebrahestar. Innfæddir nýttu sebrahesta aðeins til matar og tóku ekki í mál að aðstoða Van Riebeeck við að fanga þá þar sem sebrahestar væru svo illskeyttir. Van Riebeeck lét það ekki stöðva sig og náði sér í fjörugan sebrahest. Þegar búið var að koma böndum á skepnuna skáru menn van Riebeecks á hásinar afturfótanna. Það dugði þó ekki til að stöðva folann heldur reif hann sig lausan, stökk ofan í nærliggjandi á og hvar síðan sjónum van Riebeecks og hans manna.
Reynt hefur verið að temja sebrahesta með takmörkuðum árangri. Á þessari mynd frá Austur-Afríku, sem tekin var einhvern tímann á árunum 1890-1923, má þó sjá knapa ríða sebrahesti.
Síðar reyndu aðrir Evrópumenn í Afríku að gera reiðhesta úr þessum ótemjum með afar litlum árangri. Til að hægt sé að temja dýr þarf það að hafa gott lunderni og halda ró sinni undir álagi. Sebrahestar eru aftur á móti óútreiknanlegir í hegðun og hafa tilhneigingu til að ráðast á fólk. Þó eru nokkur dæmi um að sæmilega hafi tekist til við tamningu þeirra, en það eru undantekningar.
Þess má í lokin geta að menn hafa reynt að rækta blendinga, til dæmis látið hross og sebrahest eignast afkvæmi og sebrahest og asna. Á ensku nefnist fyrra afkvæmið zorse og hið síðara zonkey, þar sem enska heiti sebrahestsins, zebra, skeytt saman við heiti hests (horse) eða asna (donkey).
Zonkey, afkvæmi sebrahests og asna. Skepnan gengur í rauninni undir fleiri enskum nöfnum: Zeedonk, zeebrass, zebronkey, zenkey og deebra. Ekki er vitað til þess að hún hafi eitthvert íslenskt heiti, en gæti ef til vill nefnst sebraasni.
Jón Már Halldórsson. „Af hverju er ekki hægt að temja sebrahesta?“ Vísindavefurinn, 2. september 2005, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5240.
Jón Már Halldórsson. (2005, 2. september). Af hverju er ekki hægt að temja sebrahesta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5240
Jón Már Halldórsson. „Af hverju er ekki hægt að temja sebrahesta?“ Vísindavefurinn. 2. sep. 2005. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5240>.