Páfuglar eru stórir fuglar. Kvenfuglarnir verða að jafnaði um 86 cm á lengd og vega frá 2,7 til 4 kg. Karlfuglarnir eru nokkuð stærri eða allt að 107 cm á lengd og vega yfirleitt um 5-6 kg. Kvenfuglinn er grænleitur á hálsi og bringu með gráleitt bak og vængi en kviðurinn er hvítur. Karlfuglinn er öllu mikilfenglegri, með einar mestu stélfjaðrir sem fyrirfinnast meðal fugla. Fjaðrirnar eru blágrænleitar og á stélfjöðrunum eru eins konar augu. Karlfuglarnir spenna fjaðrirnar upp á æxlunartímanum til að sýna "karlmennsku" sína gagnvart kvenfuglinum sem velur þann sem hefur glæsilegustu fjaðrirnar. Oft er það lengdin og mestur gorgeirinn sem ræður úrslitum í þessari lífsins keppni páfuglsins. Þetta kynjaða val hefur í gegnum árþúsundir skapað þennan "ýkta" vöxt stélfjaðra páfuglsins. Karlfuglar með miklar stélfjaðrir eiga meiri möguleika á að koma sínum erfðavísum áfram til næstu kynslóðar. Þróunarfræðingar hafa mikið rannsakað þetta fyrirbæri og telja að stélfjaðrirnar hafa ákveðin efri mörk hvað lengd varðar. Þótt möguleikar til æxlunar aukist með lengd fjaðranna þá geta of langar stélfjaðrir dregið úr lífslíkum karlfuglanna því þá er meiri hætta á að þeir lendi í kjafti rándýra. Þarna takast því á tveir kraftar í gangvirki þróunar. Þrátt fyrir þennan mikilfenglega "æxlunarbúning" karlfuglanna eru þeir afskaplega lélegir feður. Eftir æxlun skipta þeir sér ekki af afkvæmunum heldur er það þeirra helsta keppikefli að frjóvga sem flestar hænur. Páfuglar tína fæðuna upp af jörðinni, hvort sem það eru er fræ af ýmsum tegundum eða skordýr. Páfuglinn er því alæta. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað nefnist húðsepi sá sem er undir kverk hanans? eftir Jón Má Halldórsson
- Smithsonian National Zoological Park. Sótt 18.5.2009.