Í hitabeltinu berast þráðormar með moskítóflugum og geta náð bólfestu í mönnum. Þráðormarnir geta stíflað sogæðar, valdið langvarandi sogæðabólgu og stöku sinnum því sem kallað er fílsfótur (elephantiasis). Aðrar orsakir sogæðabólgu eru skurðaðgerðir og geislameðferð við brjóstakrabbameini sem geta valdið sogæðabólgu í handlegg og af sjaldgæfari orsökum má nefna berkla, snertiofnæmi og iktsýki. Sogæðabólga er oftast sársaukalaus en útlimurinn er þrútinn og þungur og ef ástandið stendur mjög lengi versnar útlit útlimsins smám saman. Þegar ástandið stendur lengi eykst hætta á verkjum og öðrum óþægindum. Meðferðaúrræði við sogæðabólgu eru því miður ekki upp á marga fiska. Þetta stafar þó ekki af áhugaleysi einu saman því að á hverju ári birtast niðurstöður fjölmargra rannsókna á meðferð við þessum sjúkdómi. Vandamálið er bara það að alls kyns úrræði eru prófuð en árangurinn er oftast lélegur. Flestir eru þó sammála um að engin lyf dugi en hvetja eigi sjúklingana að hreyfa sig og stunda hæfilega líkamsrækt; sprautugjafir og blóðþrýstingsmælingar er hægt að framkvæma á hinum handleggnum. Það hjálpar oft að nota teygjuumbúðir sem veita hæfilegan þrýsting og koma þannig í veg fyrir að bjúgur safnist á útliminn og getur þetta meðal annars skipt miklu máli ef farið er í flugvél. Gerðar hafa verið tilraunir með tvær tegundir skurðaðgerða sem lofa nokkuð góðu. Stundum er hægt að tengja skemmdu sogæðarnar við bláæðar og veita vökvanum þangað; þetta eru vandasamar aðgerðir sem heppnast stundum vel og stundum ekki. Einnig hefur verið reynt að beita fitusogi á útliminn og fjarlægja þannig fitu undirhúðarinnar og hefur stundum náðst góður árangur á þennan hátt. Um öll þessi úrræði geta skurðlæknar veitt nánari upplýsingar. Áfram verður haldið að leita meðferðarúrræða við sogæðabólgu. Í lokin má nefna að sums staðar erlendis eru sérstakar meðferðarstofnanir fyrir sogæðabólgu og félög eða stuðningshópar fyrir sjúklinga með sjúkdóminn. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvert er hlutverk sogæðakerfisins? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hver er munurinn á eitlum og kirtlum? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju er brjóstakrabbamein kvenna svona algengt og hver eru meðferðarúrræðin? eftir Magnús Jóhannsson
- Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi? eftir Gísla Má Gíslason
- Hvert er hlutverk sogæðakerfisins? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur