Hvaðan eru orðið pæling og sögnin að pæla upprunnin og hvenær koma þessi orð fyrst fram í íslenskri tungu? Hafa þau alltaf haft sömu merkingu?Sögnin að pæla hefur tvær aðalmerkingar í íslensku. Annars vegar er hún notuð um að stinga mold upp með pál eða skóflu en páll er spaði sem notaður er til að stinga í sundur hnausa. Hann líkist skóflu en blaðið er mjórra. Jörð, sem hefur verið pæld er kölluð pæla. Hins vegar er sögnin notuð í merkingunni að 'erfiða', til dæmis að pæla í gegnum eitthvert verkefni. Fyrri merkingin virðist eldri af heimildum Orðabókar Háskólans að ráða, frá 17. öld. Elstu dæmi um hina merkinguna eru frá því um miðja 19. öld. Orðasambandið að pæla í e-u merkir að 'fást við eitthvað, hugsa um eitthvað'. Að baki liggur líklegast samlíkingin við moldarvinnsluna og erfiðið en hugsanleg eru síðan tengsl við dönsku þar sem notað er at pejle sig ind på noget í merkingunni 'reyna að setja sig inn í eitthvað, reyna að skilja eitthvað'. Verknaðurinn að vinna moldina nefnist pæling og er það orð þekkt að minnsta kosti frá lokum 18. aldar. Sú merking sem algeng er nú í óformlegu máli 'umhugsun, ráðagerð' er sótt til sagnarinnar pæla en hefur orðið fyrir áhrifum frá danska orðinu pejling sem notað er í svipaðri merkingu.
Athugasemd ritstjórnar: Eftir að þetta svar birtist höfum við fengið tvö bréf, annað frá Hirti Brynjólfssyni og hitt frá Boga Agnarssyni. Þeir hafa báðir verið til sjós og kannast við að sögnin pæla hafi verið notuð þegar vatnshæð eða olíuhæð í tönkum var mæld. Í þessari merkingu er hún komin af dönsku sögninni 'pejle' og hefur ekki orðsifjar við orðið pál. Sögnin pejle merkir líka að miða e-ð út og er notuð í óeiginlegri merkingu þegar menn vilja gera sér grein fyrir vandamálunum, 'pejle sig ind på problemerne'. Bogi segir þetta í bréfi sínu:
Á flutninga- og varðskipum, var þessi sögn nánast alltaf notuð um það að mæla vatnshæð í tönkum. Gilti það bæði um vatns- og sjótanka. T.d. gæti skipstjóri hafa sagt "stýrimaður láttu pæla forpikkinn" þegar hann vildi fá að vita hversu mikið af sjó eða vatni væri í stefnistank. Þetta er komið beint úr dönsku.Mynd: Soilworkshop