Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Að sjálfsögðu er hægt að finna svar við öllu á milli himins og jarðar. Ef einhver spyr til að mynda hvernig sólin sé á litinn er hægt að gefa mörg svör, til að mynda "sólin er gul", "sólin er græn", "sólin hefur ekki lit heldur eru litir einungis til í huga skynjandans" eða jafnvel bara "42" (en 42 var samkvæmt bók Douglas Adams, Leiðarvísi puttaferðalangsins um Vetrarbrautina, svarið við öllum spurningum veraldar). Mun erfiðari spurning er aftur á móti hvort hægt sé að finna rétt svar við öllu milli himins og jarðar.
Þegar reyna á að svara síðarnefndu spurningunni verður maður í raun að leita svara við því hvað sé þekking. Sú undirgrein heimspekinnar sem fæst við eðli þekkingar og möguleika fólks á að öðlast hana kallast þekkingarfræði (e. epistemology). Lengi vel voru þekkingarfræðingar nokkuð sammála um að þekking væri sönn rökstudd skoðun. Heimspekingurinn Edmund Gettier benti aftur á móti á að hægt væri að hafa sanna rökstudda skoðun á tilteknu fyrirbæri án þess að hafa þekkingu á því. Þeim sem vilja kynna sér rök Gettiers frekar er bent á grein hans Is justified true belief knowledge? Einnig er hægt að lesa meira í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Hvað er þekking?
Ef skilgreining á þekkingu er látin liggja á milli hluta þarf samt sem áður einnig að svara hvort yfirleitt sé hægt að vita eitthvað með vissu. Heimspekingar hafa í gegnum tíðina haft ólíkar skoðanir á þessu máli. Efahyggjumenn töldu til að mynda að ekki væri hægt að vera viss um neitt. Þekkt er þó hvernig heimspekingurinn René Descartes sýndi fram á að þótt hægt væri að efast um margt, gæti hann ekki með nokkru móti efast um að hann væri sjálfur til. Meira um þetta má lesa í svari Eyju Margrétar Brynjólfsdóttur við spurningunni Hvernig get ég sannfært sjálfan mig svo vel um að ég sé ekki til að ég geti sýnt öðrum fram á það? Lesendur ættu einnig að geta verið nokkuð vissir um fleira, eins og til dæmis að þeir séu að lesa það sem hér er skrifað.
Málið vandast þegar leita á svara við spurningum sem ekki fjalla um staðreyndir heldur fela í sér einhvers konar gildismat. Hvert er til að mynda rétta svarið við spurningum eins og "Er ítalskur matur góður?" eða "Eru Picassomálverk falleg?" Vissulega er hægt að svara spurningunum út frá sínum eigin smekk eða út frá því hvað fólki finnist almennt gott eða fallegt. Lesendur fallast þó líklega flestir á að ekkert eitt rétt svar er til við þessum spurningum heldur er hverjum og einum frjálst að svara þeim eftir sínu nefi.
Eru Picassomálverk falleg? Er til rétt svar við þessari spurningu?
Þá getur maður enn spurt hvort til sé svar við öllu milli himins og jarðar sem frá sjónarhóli svarandans er rétt. Það þýðir að rétt svar við því hvort ítalskur matur sé góður megi væntanlega finna einhversstaðar í huga þess sem svarar.
Svo má að lokum velta fyrir sér þversögnum eins og þverstæðu lygarans:
A: Setning B er lygi
B: Setning A er sönn
Síðan spyr maður einfaldlega hvort setning A (eða B) sé sönn eða ósönn, og svo virðist sem almennilegt svar við spurningunni fáist alls ekki. Lausnin felst ef til vill í því að svara því til, að hún sé hvorki sönn né ósönn þar sem hvort tveggja leiði til þversagnar. Meira má lesa um þverstæðu lygarans í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni A: Setning B er lygi. B: Setning A er sönn. Getur þetta nokkurn tímann gengið upp?
Í stuttu máli fer svarið við því hvort hægt sé að finna svar við öllu á milli himins og jarðar að miklu leyti eftir því hvað spyrjandi telur fullnægjandi svar.
Heimild og myndir
The Penguin dictionary of philosophy. 2000. Ritstjóri: Mautner, T. London: Penguin Books Ltd.
Myndir af sólum eru af Sun Berries. Justin Thomson.
Hlín Önnudóttir og Heiða María Sigurðardóttir. „Er hægt að finna svar við öllu milli himins og jarðar?“ Vísindavefurinn, 24. ágúst 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5219.
Hlín Önnudóttir og Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 24. ágúst). Er hægt að finna svar við öllu milli himins og jarðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5219
Hlín Önnudóttir og Heiða María Sigurðardóttir. „Er hægt að finna svar við öllu milli himins og jarðar?“ Vísindavefurinn. 24. ágú. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5219>.