Um orðin Babel og Babýlon segir í Íslenskri orðsifjabók að uppruninn sé óljós. Nafn borgarinnar gæti verið úr assýrísku, en orðið bab-ilu merkir 'hlið guðs eða guða' og eins gæti það verið dregið af hebreska orðinu babel sem merkir 'ringulreið'. Þetta er þó talið vafasamt. Nafnorðið babl eða babbl er notað um ógreinilegt tal, þvaður eða þrugl og sögnin babla eða babbla merkir það sama. Babbl er meðal annars sérstaklega notað um tal barna enda er sú skýring gefin í Íslenskri orðsifjabók að orðið sé hljóðlíking, leidd af hjalhljóði ungbarna, samanber til dæmis hljóðmyndirnar ba-ba og ma-ma. Babbl er raunar tengt orðinu babb sem hægt er að lesa meira um í svari Guðrúnar Kvaran við spurningunni Hvað er þetta "babb" sem á það til að koma í báta?
Það er skemmtileg hugmynd hjá spyrjanda að tengja saman orðið babbl og babel. Hins vegar er einfaldasta skýringin á orðinu babbl að það sé dregið af hjali ungbarna. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða tungumál ætli Nói og niðjar hans hafi talað? eftir Guðrúnu Kvaran
- Af hverju þurfa allir að tala ólík tungumál? eftir JGÞ
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, Orðabók Háskólans, Reykjavík 1989.
- Meaning, origin and etymology of the name Babel, Babylon. Skoðað 27.2.2009.
- MoneyLaw. Sótt 27.2.2009.
Hver er uppruni sagnorðsins að babla? Kenning mín er sú að það sé dregið af Babel og tengist Babelsturninum, en samkvæmt Biblíunni fór bygging hans einstaklega í taugarnar á Guði og hann ruglaði tungumálin, fær þetta staðist?