Í hvaða átt er humátt? Af hverju er það dregið að fara í humátt á eftir einhverjum?Humátt er eitt af nokkrum afbökunum úr orðinu hámót. Hámót merkir 'hælfar, spor' og orðasambandið var upphaflega að fara í hámót á eftir einhverjum 'læðast á eftir e-m'. Fyrri liðurinn há- kemur ekki fyrir sjálfstæður en finnst í orðunum háband 'hækilhaft á sauðkind' og hásin 'sinin aftan á hælnum'. Sambærilegt orð var til í fornensku hôh 'hæll, hækill' meðal annars í hôhsinu 'hásin'. Elstu dæmi Orðabókar Háskólans eru frá miðri 18. öld um að fylgja e-m í hámóti en snemma á 19. öld er farið að nota að fara/ganga í hámót á eftir e-m og er það notað enn þann dag í dag. Elsta dæmi Orðabókarinnar um afbökunina humátt er frá því um aldamótin 1700. Það er úr kvæði þar sem talað var um að halda í humátt til e-s. Orðasambandið ganga/fylgja/ í humátt á eftir e-m virðist koma fram um miðja 19. öld. Aðrar hliðarmyndir eru humótt, sem elst dæmi er um frá því um 1700, og hémótt frá lokum 18. aldar.
Útgáfudagur
29.7.2005
Spyrjandi
Birna Lárusdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Í hvaða átt er humátt?“ Vísindavefurinn, 29. júlí 2005, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5167.
Guðrún Kvaran. (2005, 29. júlí). Í hvaða átt er humátt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5167
Guðrún Kvaran. „Í hvaða átt er humátt?“ Vísindavefurinn. 29. júl. 2005. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5167>.