Satt að segja er jarðarberið (Fragraria) ekki eiginlegt ber, heldur blómbotn jarðarberjablómsins. Hin eiginlegu aldin eru örðurnar utan á berinu, sem margir halda að séu fræ. Raunar er hver þeirra fullkomið aldin og inni í því er svo fræ. Jarðarberið er því í raun samsettur ávöxtur eins og hindber og brómber en þar sitja aldinin saman í þéttum klasa.Á öðrum norðurlandamálum og í þýsku bera jarðarber sama nafn og á íslensku. Á norsku og dönsku kallast þau jordbær, á sænsku jordgubben og í þýsku Erdbeere. Á ensku nefnast þau strawberries sem þýðir beinlíns stráber.
Í mörgum rómönskum málum er heiti berjanna dregið af latneska orðinu fraga sem merkir jarðarber en það er skylt sögninni fragro sem merkir að ilma eða anga, samanber til dæmis enska orðið fragrant. Á spænsku nefnast þau fresón, á frönsku fraise og á ítölsku fragola. Portúgalska orðið fyrir jarðarber er morango. Þegar menn kaupa ný jarðarber er best að velja ber með krónublöðum. Ef búið er að fjarlægja þau geymast berin illa. Best er að taka krónublöðin af berjunum eftir að þau eru þvegin því án þeirra sjúga þau í sig vatn og linast upp við skolunina. Heimildir og mynd:
- Vefbækur: Matarást. Skoðað 6.2.2009.
- Britannica Online. Skoðað 6.2.2009.
- Shunya. Sótt 6.2.2009.