- Bær í Svínadal í Hvalfjarðarsveit í Borgarfjarðarsýslu.
- Bær í Stafholtstungum í Mýrarsýslu. Hann stóð á lágum öldóttum klapparhrygg.
- Bær í Hraunhreppi í Mýrarsýslu.
- Bær í Miklaholtshreppi í Snæfellssýslu. Þar þykir hvassviðrasamt.
- Bær í Miðdölum í Dalasýslu.
- Bær í Laxárdal í Dalsýslu.
- Bær í Geiradalshreppi í Austur-Barðastrandasýslu.
- Eyðibýli í Súðavík í Norður-Ísafjarðarsýslu.
- Eyðibýli í Hraungerðishreppi í Árnessýslu.
Finnur Jónsson prófessor skrifaði eftirfarandi um nafnið:
Svarð-: óvíst hvort rjettara sje Svarð- eða Svarf-, en líklega er þó hið síðara rjettara, sbr. öll hin nöfnin með Svarf-; þar sem ritað er Svarból- er allur vafi frá, því að þetta er f(yrir) Svarb-hóll (f varð að b á eftir r í vestfirsku) og er því alveg rángt að gera úr þessu Svarból, eins og síðari liðurinn væri –ból. Hvað svarf- í þessu nafni merkir, veit jeg ekki.“ (Bæjanöfn á Íslandi, 536).Þórhallur Vilmundarson taldi þrátt fyrir þetta að upprunalega nafnið hefði verið Svarðhóll. (Sbr. Grímnir 3:115-121). Hér verður þó tekið meira mið af elstu myndunum og þá leitað til merkingarinnar ‚sveigur, hringur‘ eins og til dæmis sagnorðið svarve í nýnorsku ‚svinge, gå i ring‘, en þegar sá stofn kemur fyrir í norskum örnefnum á það þó líklega helst við ár sem renna í sveigum, til dæmis bæjarnafnið Svarva. Bær á Vestfold í Noregi heitir nú Svarstad en áður „a Swaruastodum“ (1366), hugsanlega af Svarfaðarstaðir. (Norsk stadnamnleksikon, 306). Sagnorðið svarfa í íslensku er stundum notað ópersónulega, það svarfar af, um snjó í merkingunni‚ það skefur, feykir af‘, og er sú merking hugsanleg í nafninu Svarfhóll, að það sé hóll sem skefur af. Líklegra er þó að svarf vísi til einhvers sem er topplaga eða kringlótt. Í því sambandi er vert að hafa í huga að orðið svarfhvalur er annað nafn á hnúfubak, en hnúfa merkir ‚hnúður, smátoppur‘ og er nafnið dregið af hnúð sem er einkenni á þessari hvalategund. Svarfhóll merkir því sennilega ‚toppmyndaður hóll‘. Heimildir og mynd:
- Finnur Jónsson: Bæjanöfn á Íslandi. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta IV. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1907-1915.
- Grímnir. Rit um nafnfræði 1-3. Reykjavík 1980-1996.
- Norsk stadnamnleksikon. Oslo 1976.
- Sturlunga saga I-II. Reykjavík 1946.
- Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund.