Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða íþróttir eru best til þess fallnar að efla og bæta hreyfiþroska barna?

Þjóðbjörg Guðjónsdóttir

Stutta svarið við spurningunni er að engin ein íþróttagrein gerir það. Mikilvægt er að ung börn fái tækifæri til fjölbreyttrar hreyfingar og endurtekinnar æfingar til að bæta hreyfiþroska sinn. Iðkun einnar íþróttagreinar krefst ákveðinnar samhæfingar sem er sérstök fyrir þá grein og gefur ekki þá fjölbreytni sem þarf til að hreyfiþroski verði sem bestur. En hér er vert að skoða hvað hefur áhrif á hreyfiþroska.

Hreyfiþroski og áhrifaþættir

Hreyfiþroski er ferli þar sem aldurstengdar breytingar verða á hreyfifærni. Börn sem alast upp við svipaðar aðstæður bæta við hreyfigetu sína eftir svipaðri röð. Þau læra að ganga kringum eins árs aldur og þegar þau verða eldri læra þau að hlaupa og hoppa. En þó að þroskaröðin sé svipuð, þroskast hvert barn á sínum eigin hraða. Það er því mikill breytileiki í hreyfigetu barna á sama aldri.

Hraði hreyfiþroskans er að hluta til meðfæddur. Hann fer eftir því hversu hratt líkami barnsins þroskast, einkum heilinn en einnig önnur líkamskerfi svo sem vöðvar og bein. Til að barnið geti framkvæmt vel samhæfðar hreyfingar og haldið góðu jafnvægi við framkvæmd þeirra þarf samspilið á milli miðtaugakerfisins (heilans) og stoðkerfisins að þroskast.


Fjölbreytt hreyfing og tækifæri til endurtekinnar æfingar er best til að bæta hreyfiþroska barna.

Hraði hreyfiþroskans er einnig háður umhverfi barnsins. Til að barn taki framförum í hreyfiþroska þarf það að hafa aðstöðu til að hreyfa sig og geta æft ákveðnar athafnir endurtekið. Sem dæmi má taka barn sem er að æfa sig í að sparka bolta. Ef barnið fær sjaldan tækifæri til þess gengur æfingin hægt. Og til að ná góðri tækni með boltann verður að æfa endurtekið. Áhugi foreldra og hvatning til æfinga telst einnig til umhverfisáhrifa.

Í stuttu máli má segja að hreyfiþroski verði vegna samspils líffræðilegra þroskabreytinga og umhverfis, það er að segja aðstöðu, tækifæra og hvatningar til æfinga.

Hreyfiþroski og íþróttir

Í stað þess að skoða hvaða íþróttir eru best fallnar til að efla hreyfiþroska hafa nokkrir fræðimenn athugað hvenær börn eru tilbúin að taka þátt í skipulögðum íþróttaæfingum þar sem áherslan er á liðsheild eða keppni.

Á aldrinum eins árs til sjö ára læra börn grunnatriði grófhreyfiþroska. Á þessum árum bæta þau jafnvægi sitt og læra samhæfð munstur sem verða grunnur að þeim hreyfingum sem þau nota í mismunandi íþróttum, hvort sem um er að ræða frjálsar íþróttir, boltaíþróttir eða dans. Þau læra að hlaupa, hoppa, stökkva, klifra og leika einfalda leiki með bolta svo sem sparka, kasta og grípa. Almennt er talið að börn á þessum aldri græði meira á frjálsum leik þar sem fjölbreytni ríkir en þjálfun keppnisíþrótta. Í frjálsum leik er lagður grunnur að sjálfstrausti og samhæfingu.

Aðrir segja að börn á aldrinum 3-4 ára geti vel tekið þátt í boltaíþróttum. Það þurfi bara að aðlaga íþróttagreinina að þessum aldri. Þessi aðlögun ætti þá að felast í því að æfa ýmis grunnatriði grófhreyfinga, til dæmis að kasta bolta í ákveðna átt eða ákveðna vegalengd. Þá er í raun verið að kenna börnunum einfalda leiki með bolta og hlaup, nokkuð sem börn á þessum aldri gera annars í frjálsum leik.

Jafnvel þó að dæmi séu um einstaka afreksíþróttamenn í heiminum sem byrjuðu að æfa íþrótt sína mjög ungir, eru litlar sannanir fyrir því að börn sem byrja snemma (3-5 ára) að æfa íþróttir fái yfirleitt forskot á hin sem gera það ekki. Þvert á móti er talið að meiri líkur séu á að þau hætti snemma að stunda íþróttina, oft í kringum 12-13 ára aldurinn.

Hreyfiþroski barna á aldrinum sjö til tólf ára heldur áfram og einkennist þetta tímabil af því að hvert barn er að finna árangursríkustu hreyfiaðferðina við hverja athöfn sem það framkvæmir. Á þessum aldri eru börn fær um að aðlaga sínar grunnhreyfingar að þeirri íþrótt sem þau velja að stunda. Hlaup er til dæmis aðlagað að því hlaupa yfir hindranir (grindahlaup) eða hlaupa yfir völlinn í boltaíþrótt. Eins er tæknin við að sparka, kasta og grípa bolta löguð að þeirri boltaíþrótt sem þau stunda.

Rétt er að hafa í huga að vegna mismunandi þroskahraða eru sum börn í fyrstu bekkjum grunnskóla ef til vill ekki tilbúin til að taka þátt í hópíþróttum þó að jafnaldrar þeirra séu það. Þau þurfa meiri tíma og æfingu til að ná þeim þroska.

Íþróttir eiga ekki aðeins að fela í sér að börn bæti við hreyfifærni sína heldur á iðkun þeirra að vera skemmtileg og félagslega þroskandi. Hún er auðvitað skemmtileg og viðheldur áhuga þegar börnin finna að þau læra nýja færni. En það er ekki síður gaman að vera með vinum sínum, læra að vinna saman, takast á við gott gengi og mótlæti. Einnig læra þau að það er munur milli barna. Sum eru góð í fimleikum meðan önnur eru góð í handbolta. Og hver og einn fær hlutverk eftir sinni getu innan hópsins þegar þau æfa hópíþrótt.

Eftir 12-13 ára aldur kemur tímabil þar sem færnin verður enn betri með æfingu. Unglingar bæta verulega við hreyfifærni sína með æfingu. Það hversu langt hver og einn nær fer eftir upplagi og æfingu. Sumir ná þeirri getu að verða afreksmenn og jafnvel atvinnumenn í sinni grein. En aðrir ná aldrei svo mikilli færni. En öll hreyfing er góð og það að hafa verið virkur í íþróttum sem barn, hlýtur að skila sér í heilbrigðari lífsháttum sem fullorðinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

lektor og sérfræðingur í sjúkraþjálfun barna við HÍ

Útgáfudagur

14.4.2009

Spyrjandi

Harpa Rún Kristjánsdóttir

Tilvísun

Þjóðbjörg Guðjónsdóttir. „Hvaða íþróttir eru best til þess fallnar að efla og bæta hreyfiþroska barna?“ Vísindavefurinn, 14. apríl 2009, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51389.

Þjóðbjörg Guðjónsdóttir. (2009, 14. apríl). Hvaða íþróttir eru best til þess fallnar að efla og bæta hreyfiþroska barna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51389

Þjóðbjörg Guðjónsdóttir. „Hvaða íþróttir eru best til þess fallnar að efla og bæta hreyfiþroska barna?“ Vísindavefurinn. 14. apr. 2009. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51389>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða íþróttir eru best til þess fallnar að efla og bæta hreyfiþroska barna?
Stutta svarið við spurningunni er að engin ein íþróttagrein gerir það. Mikilvægt er að ung börn fái tækifæri til fjölbreyttrar hreyfingar og endurtekinnar æfingar til að bæta hreyfiþroska sinn. Iðkun einnar íþróttagreinar krefst ákveðinnar samhæfingar sem er sérstök fyrir þá grein og gefur ekki þá fjölbreytni sem þarf til að hreyfiþroski verði sem bestur. En hér er vert að skoða hvað hefur áhrif á hreyfiþroska.

Hreyfiþroski og áhrifaþættir

Hreyfiþroski er ferli þar sem aldurstengdar breytingar verða á hreyfifærni. Börn sem alast upp við svipaðar aðstæður bæta við hreyfigetu sína eftir svipaðri röð. Þau læra að ganga kringum eins árs aldur og þegar þau verða eldri læra þau að hlaupa og hoppa. En þó að þroskaröðin sé svipuð, þroskast hvert barn á sínum eigin hraða. Það er því mikill breytileiki í hreyfigetu barna á sama aldri.

Hraði hreyfiþroskans er að hluta til meðfæddur. Hann fer eftir því hversu hratt líkami barnsins þroskast, einkum heilinn en einnig önnur líkamskerfi svo sem vöðvar og bein. Til að barnið geti framkvæmt vel samhæfðar hreyfingar og haldið góðu jafnvægi við framkvæmd þeirra þarf samspilið á milli miðtaugakerfisins (heilans) og stoðkerfisins að þroskast.


Fjölbreytt hreyfing og tækifæri til endurtekinnar æfingar er best til að bæta hreyfiþroska barna.

Hraði hreyfiþroskans er einnig háður umhverfi barnsins. Til að barn taki framförum í hreyfiþroska þarf það að hafa aðstöðu til að hreyfa sig og geta æft ákveðnar athafnir endurtekið. Sem dæmi má taka barn sem er að æfa sig í að sparka bolta. Ef barnið fær sjaldan tækifæri til þess gengur æfingin hægt. Og til að ná góðri tækni með boltann verður að æfa endurtekið. Áhugi foreldra og hvatning til æfinga telst einnig til umhverfisáhrifa.

Í stuttu máli má segja að hreyfiþroski verði vegna samspils líffræðilegra þroskabreytinga og umhverfis, það er að segja aðstöðu, tækifæra og hvatningar til æfinga.

Hreyfiþroski og íþróttir

Í stað þess að skoða hvaða íþróttir eru best fallnar til að efla hreyfiþroska hafa nokkrir fræðimenn athugað hvenær börn eru tilbúin að taka þátt í skipulögðum íþróttaæfingum þar sem áherslan er á liðsheild eða keppni.

Á aldrinum eins árs til sjö ára læra börn grunnatriði grófhreyfiþroska. Á þessum árum bæta þau jafnvægi sitt og læra samhæfð munstur sem verða grunnur að þeim hreyfingum sem þau nota í mismunandi íþróttum, hvort sem um er að ræða frjálsar íþróttir, boltaíþróttir eða dans. Þau læra að hlaupa, hoppa, stökkva, klifra og leika einfalda leiki með bolta svo sem sparka, kasta og grípa. Almennt er talið að börn á þessum aldri græði meira á frjálsum leik þar sem fjölbreytni ríkir en þjálfun keppnisíþrótta. Í frjálsum leik er lagður grunnur að sjálfstrausti og samhæfingu.

Aðrir segja að börn á aldrinum 3-4 ára geti vel tekið þátt í boltaíþróttum. Það þurfi bara að aðlaga íþróttagreinina að þessum aldri. Þessi aðlögun ætti þá að felast í því að æfa ýmis grunnatriði grófhreyfinga, til dæmis að kasta bolta í ákveðna átt eða ákveðna vegalengd. Þá er í raun verið að kenna börnunum einfalda leiki með bolta og hlaup, nokkuð sem börn á þessum aldri gera annars í frjálsum leik.

Jafnvel þó að dæmi séu um einstaka afreksíþróttamenn í heiminum sem byrjuðu að æfa íþrótt sína mjög ungir, eru litlar sannanir fyrir því að börn sem byrja snemma (3-5 ára) að æfa íþróttir fái yfirleitt forskot á hin sem gera það ekki. Þvert á móti er talið að meiri líkur séu á að þau hætti snemma að stunda íþróttina, oft í kringum 12-13 ára aldurinn.

Hreyfiþroski barna á aldrinum sjö til tólf ára heldur áfram og einkennist þetta tímabil af því að hvert barn er að finna árangursríkustu hreyfiaðferðina við hverja athöfn sem það framkvæmir. Á þessum aldri eru börn fær um að aðlaga sínar grunnhreyfingar að þeirri íþrótt sem þau velja að stunda. Hlaup er til dæmis aðlagað að því hlaupa yfir hindranir (grindahlaup) eða hlaupa yfir völlinn í boltaíþrótt. Eins er tæknin við að sparka, kasta og grípa bolta löguð að þeirri boltaíþrótt sem þau stunda.

Rétt er að hafa í huga að vegna mismunandi þroskahraða eru sum börn í fyrstu bekkjum grunnskóla ef til vill ekki tilbúin til að taka þátt í hópíþróttum þó að jafnaldrar þeirra séu það. Þau þurfa meiri tíma og æfingu til að ná þeim þroska.

Íþróttir eiga ekki aðeins að fela í sér að börn bæti við hreyfifærni sína heldur á iðkun þeirra að vera skemmtileg og félagslega þroskandi. Hún er auðvitað skemmtileg og viðheldur áhuga þegar börnin finna að þau læra nýja færni. En það er ekki síður gaman að vera með vinum sínum, læra að vinna saman, takast á við gott gengi og mótlæti. Einnig læra þau að það er munur milli barna. Sum eru góð í fimleikum meðan önnur eru góð í handbolta. Og hver og einn fær hlutverk eftir sinni getu innan hópsins þegar þau æfa hópíþrótt.

Eftir 12-13 ára aldur kemur tímabil þar sem færnin verður enn betri með æfingu. Unglingar bæta verulega við hreyfifærni sína með æfingu. Það hversu langt hver og einn nær fer eftir upplagi og æfingu. Sumir ná þeirri getu að verða afreksmenn og jafnvel atvinnumenn í sinni grein. En aðrir ná aldrei svo mikilli færni. En öll hreyfing er góð og það að hafa verið virkur í íþróttum sem barn, hlýtur að skila sér í heilbrigðari lífsháttum sem fullorðinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...