Hvað þýðir ISBN-talan fremst í íslenskum bókum? T.d. ISBN 9979-1-0047-8.ISBN stendur fyrir International Standard Book Number, og kallast á íslensku alþjóðlegt bóknúmer. Alþjóðlega bóknúmerið er nokkurs konar einkennistala sem þjónar þeim tilgangi að greina eitt rit sem best frá öðru. Alþjóðlega bóknúmerið er notað í 159 löndum, og hefur verið í notkun á Íslandi frá árinu 1990. Alþjóðlega bóknúmerastofan í Berlín hefur yfirumsjón með úthlutun bóknúmeranna, en Landsbókasafn Íslands sinnir því starfi hér á landi. Í alþjóðlega bóknúmerinu eru tíu tölustafir, og er því skipt í fjóra þætti, eða í hóptölu, tölu útgefanda, titiltölu og vartölu. Hóptala getur átt við þjóð, landsvæði, málsvæði eða annan hóp fólks. Allar bækur sem gefnar eru út á Íslandi fá til að mynda hópnúmerið 9979. Tala útgefanda getur verið eins til fjögurra stafa, og fer lengdin eftir fjölda útgefinna titla. Titiltala segir svo til um hvaða titil hjá útgefanda um ræðir. Mismunandi útgáfur sama rits, svo sem kiljur og harðspjaldabækur, fá ólíka titiltölu. Vartalan er svo reiknuð út frá hinum tölunum níu, og nær frá núlli upp í tíu. Ef vartalan er tíu er notað rómverska táknið X.
- ISBN: Alþjóðlegt bóknúmer. Landsbókasafn Íslands.
- Íslenska alfræðiorðabókin (1. bindi). 1988. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Reykjavík, Örn og Örlygur.
- Myndin er byggð á mynd af ISBN user's manual.
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.