Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Gæti einhver íslenskur fugl drepið mann?

Jón Már Halldórsson

Í íslenskri náttúru eru engin lífshættuleg dýr líkt og í náttúru margra annarra landa. Sum dýr hér á landi sýna þó mikla árásarhneigð við ákveðnar kringumstæður, til dæmis þegar fólk fer of nærri hreiðrum þeirra eða búi. Einhverjir hafa eflaust lent í árásum geitunga á sumrin.

Nokkrar fuglategundir vernda hreiður sín af miklu kappi. Krían (Sterna paradisaea) er kunnust fyrir slíkt háttalag og hefur goggað í marga sem hætta sér of nálægt hreiðri hennar um varptímann. Höfundur hefur engar heimildir um það að fólki hafi orðið verulega meint af árásunum, nema kannski á sálinni.


Skúmar hjá Ingólfshöfða ráðast að Sigurði á Hofsnesi. © Copyright Pétur Gauti.

Annar fugl, mun stærri og kraftmeiri en krían, sýnir svipaða varnartilburði, nefnilega skúmurinn (Stercorarius skua). Hann er það sterkur að hann getur barið niður grágæsir á flugi. Mönnum hefur sjálfsagt einhverntíma orðið meint af árásum skúma sem verja hreiður sín af miklum krafti og einurð. Þó eru það líklega fullmiklar ýkjur að halda því fram að skúmurinn sé lífshættulegur og í raun á það sama við um flestar tegundir núlifandi fugla. Ein undantekning gæti þó verið hinn ástralski kasúi (Casuarius casuarius ) sem er bæði afar sterkur, með miklar klær og þar að auki árásargjarn.

Þó mætti nefna tvær athyglisverðar sögur af „skúmaslóðum“ suður á söndunum í Skaftafellssýslum. Hinn kunni sögumaður og ferðafrömuður, Sigurður á Hofsnesi, hafði gaman að því að segja ferðamönnum sögu af frekar óhugnanlegu atviki þar sem skúmur fletti höfuðleðri af manni nokkrum. Sagan segir að skúmurinn hafi verið merktur með málmhring um fót og kunna áverkarnir að hafa stafað af honum.

Annað tilvik átti sér stað á Breiðamerkursandi á 19. öld. Þá fannst maður látinn í skúmsvarpi og dauður skúmur hjá. Hinn látni hafði líklega verið í ungatöku og var talið að skúmnum hefði fatast flugið og skollið á manninn með þeim afleiðingum að báðir lágu í valnum.

Ýmsar sögur af árásum fugla á menn eru þekktar. Til að mynda gerði mislynd álft mörgum lífið leitt við Reykjavíkurtjörn fyrir fáeinum árum.

Að lokum er vert að minnast á þjóðsögur um barnsrán arna (Haliaeetus albicilla). Fuglafræðingar draga sannleiksgildi slíkra sagna mikið í efa. Sjálfsagt voru sögurnar sagðar til að ala á ótta og hatri á erninum líkt og skyldar sögur erlendis frá af tegundum sem gátu valdið manninum búsifjum. Af sama meiði eru til að mynda fjölmargar sögur frá Evrópu úr fyrndinni af meintri grimmd úlfa (Canis lupus). Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn er þekktasta sagan af því tagi. Þess ber þó að geta að úlfar gátu sjálfsagt valdið mönnum verulegu tjóni hér áður fyrr, en engan veginn er hægt að bera slíkt saman við meint tjón hafarna hér á landi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur þakkar þeim Jóhanni Óla Hilmarssyni og Kristni Hauki Skarphéðinssyni fyrir veittar upplýsingar við gerð þessa svars.

Mynd:

  • Flickr. © Copyright Pétur Gauti. Sótt 25.2.2009.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

25.2.2009

Spyrjandi

Stefán Erlingsson, f. 1990

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Gæti einhver íslenskur fugl drepið mann?“ Vísindavefurinn, 25. febrúar 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51362.

Jón Már Halldórsson. (2009, 25. febrúar). Gæti einhver íslenskur fugl drepið mann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51362

Jón Már Halldórsson. „Gæti einhver íslenskur fugl drepið mann?“ Vísindavefurinn. 25. feb. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51362>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Gæti einhver íslenskur fugl drepið mann?
Í íslenskri náttúru eru engin lífshættuleg dýr líkt og í náttúru margra annarra landa. Sum dýr hér á landi sýna þó mikla árásarhneigð við ákveðnar kringumstæður, til dæmis þegar fólk fer of nærri hreiðrum þeirra eða búi. Einhverjir hafa eflaust lent í árásum geitunga á sumrin.

Nokkrar fuglategundir vernda hreiður sín af miklu kappi. Krían (Sterna paradisaea) er kunnust fyrir slíkt háttalag og hefur goggað í marga sem hætta sér of nálægt hreiðri hennar um varptímann. Höfundur hefur engar heimildir um það að fólki hafi orðið verulega meint af árásunum, nema kannski á sálinni.


Skúmar hjá Ingólfshöfða ráðast að Sigurði á Hofsnesi. © Copyright Pétur Gauti.

Annar fugl, mun stærri og kraftmeiri en krían, sýnir svipaða varnartilburði, nefnilega skúmurinn (Stercorarius skua). Hann er það sterkur að hann getur barið niður grágæsir á flugi. Mönnum hefur sjálfsagt einhverntíma orðið meint af árásum skúma sem verja hreiður sín af miklum krafti og einurð. Þó eru það líklega fullmiklar ýkjur að halda því fram að skúmurinn sé lífshættulegur og í raun á það sama við um flestar tegundir núlifandi fugla. Ein undantekning gæti þó verið hinn ástralski kasúi (Casuarius casuarius ) sem er bæði afar sterkur, með miklar klær og þar að auki árásargjarn.

Þó mætti nefna tvær athyglisverðar sögur af „skúmaslóðum“ suður á söndunum í Skaftafellssýslum. Hinn kunni sögumaður og ferðafrömuður, Sigurður á Hofsnesi, hafði gaman að því að segja ferðamönnum sögu af frekar óhugnanlegu atviki þar sem skúmur fletti höfuðleðri af manni nokkrum. Sagan segir að skúmurinn hafi verið merktur með málmhring um fót og kunna áverkarnir að hafa stafað af honum.

Annað tilvik átti sér stað á Breiðamerkursandi á 19. öld. Þá fannst maður látinn í skúmsvarpi og dauður skúmur hjá. Hinn látni hafði líklega verið í ungatöku og var talið að skúmnum hefði fatast flugið og skollið á manninn með þeim afleiðingum að báðir lágu í valnum.

Ýmsar sögur af árásum fugla á menn eru þekktar. Til að mynda gerði mislynd álft mörgum lífið leitt við Reykjavíkurtjörn fyrir fáeinum árum.

Að lokum er vert að minnast á þjóðsögur um barnsrán arna (Haliaeetus albicilla). Fuglafræðingar draga sannleiksgildi slíkra sagna mikið í efa. Sjálfsagt voru sögurnar sagðar til að ala á ótta og hatri á erninum líkt og skyldar sögur erlendis frá af tegundum sem gátu valdið manninum búsifjum. Af sama meiði eru til að mynda fjölmargar sögur frá Evrópu úr fyrndinni af meintri grimmd úlfa (Canis lupus). Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn er þekktasta sagan af því tagi. Þess ber þó að geta að úlfar gátu sjálfsagt valdið mönnum verulegu tjóni hér áður fyrr, en engan veginn er hægt að bera slíkt saman við meint tjón hafarna hér á landi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur þakkar þeim Jóhanni Óla Hilmarssyni og Kristni Hauki Skarphéðinssyni fyrir veittar upplýsingar við gerð þessa svars.

Mynd:

  • Flickr. © Copyright Pétur Gauti. Sótt 25.2.2009....