Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er sjósund í köldum sjó hollt?

Þórarinn Sveinsson

Sjósund hefur ekki verið rannsakað mikið og því er lítið hægt að fullyrða um hollustu eða skaðsemi þess. Sjósund reynir á líkamann og almennt gildir að mátuleg áreynsla er holl. Regluleg og hæfileg áreynsla framkallar aðlögun í líffærakerfum okkar og það hefur sýnt sig að þannig er hægt auka lífslíkur og draga úr líkum á ýmsum sjúkdómum og kvillum. Mest hefur þetta verið rannsakað í tengslum við hefðbundna loftháða áreynslu, eins og hlaup og göngu. Einnig hefur styrkþjálfun verið talsvert rannsökuð, til dæmis hjá eldra fólki, og þá hefur meðal annars komið í ljós að hún minnkar líkur á föllum og dregur úr beinþynningu.

Það sem greinir sjóböð eða sjósund á norðlægum slóðum frá annarri loftháðri áreynslu er hitastig umhverfisins og það álag sem það veldur líkamanum. Lágt hitastig eitt og sér veldur álagi og áhættu. Áhættunni er hægt að skipta í tvennt. Í fyrsta lagi þá eru það svokölluð skammtímaáhrif (e. acute), sem koma fram innan þriggja mínútna og í öðru lagi eru það langtímaáhrif (e. chronic), sem koma ekki fram fyrr en nokkuð mörgum mínútum seinna.


Sjósund í Nauthólsvík.

Helstu skammtímaáhættuþættirnir eru tveir: Annars vegar hætta á drukknun þegar sundfólkið tekur andköf sem orsakast af illa skilgreindum skynáhrifum á miðtaugakerfið. Hins vegar álag á hjarta og blóðrásarkerfið sem orsakast af snöggum samdrætti slagæðlinga sem liggja til húðar og útlima. Þetta getur valdið tímabundinni hækkun á blóðþrýstingi, bæði vegna aukins viðnáms æðakerfisins og aukningar í slagkrafti hjartans. Það er vel staðfest að þetta getur aukið líkur á hjartaáfalli.

Langtímaáhættuþættirnir eru þeir að líkaminn getur lent í vanda við að viðhalda æskilegum líkamshita. Þegar líkaminn kólnar, fellur líkamshitinn í kviðar- og brjóstholi, svo og í heila og það er skilgreint sem ofkæling. Ef hitastigið á þessum svæðum fellur niður fyrir 31°C getum við ekki aukið líkamshitann án utanaðkomandi hjálpar. Við höfum í raun misst stjórnina á líkamshitanum sem lækkar þá hratt og er kominn í frjálst fall, ef svo má að orði komast.

Ofkæling getur valdið alvarlegum og óafturkræfum skemmdum á ýmsum líffærum, svo sem heila, meltingarvegi og nýrum ef ástandið varir lengi. Ýmis vandamál geta líka komið upp við meðhöndlun á fólki sem hefur ofkælst og því er mikilvægt fyrir fólk sem stundar sjósund að kynna sér rétt viðbrögð við þeim.

Þegar synt er í köldum sjó minnkar blóðflæði til húðar vegna samdráttar æða þar. Þetta getur valdið auknum vatnsútskilnaði um nýru og til lengri tíma litið, vatnsskorti í líkamanum. Önnur þekkt langtímaáhrif eru svonefnd sundbilun (e. swimming failure). Hún lýsir sér í aukinni öndun og súrefnisupptöku en jafnframt minnkaðri sundgetu. Rannsóknir hafa sýnt að líkleg skýring á þessu er að hitastig í handleggsvöðum lækkar og vöðvaþreytu verður vart. Þar með aukast líkur á uppgjöf og drukknun.

Einnig hefur verið bent á að þéttleiki sýkla og vírusa getur verið óæskilega mikill á ákveðnum svæðum í sjó, til dæmis í námunda við staði þar sem skolplagnir og úrgangsefni eru losuð í sjó. Sýkingar hafa í sumum tilfellum verið raktar til sjóbaða en ýtarlegri faraldsfræðilegar rannsóknir vantar til að staðfesta hversu mikil áhættan sé. Þá má líka nefna að hætta getur stafað af eitruðum þörungum, hveljum og ýmsum öðrum dýrum, svo ekki sé talað um stærri rándýr, eins og hákarla. Þessar hættur ættu þó að vera það vel þekktar og kortlagðar að auðvelt sé að forðast þær.

Það sem skilur að sund í fersku vatni og sjó er seltustigið. Seltustig sjávar er mun hærra en líkamans en í fersku vatni er þessu öfugt farið, seltustig líkamans er miklu hærra. Þetta skapar ólík vandamál fyrir dýr sem anda með tálknum eða húð, í tengslum við salt- og vatnsbúskap. Eina vandamálið sem þetta skapar fólki og dýrum sem anda að sér lofti í lungu, er að sjó er ekki hægt að drekka við þorsta. Vatnstap, sem óhjákvæmilega verður alltaf eitthvað vegna svitamyndunar við áreynslu sem varir í lengri tíma en nokkrar mínútur, getur því valdið vatnskorti í líkamanum, ef menn hafa ekki ferskvatnsbirgðir meðferðis. Vatnsskortur getur aukið á þreytu, ofkælingu og orsakað blóðþrýstingsfall. Ekki eru nein lífeðlisfræðileg rök fyrir því að seltustigið sem slíkt hafi einhver heilsufarslega jákvæð áhrif á líkamann en ástæðulaust er þó að útiloka slíkt án frekari rannsókna.

Nokkur áhætta fylgir augljóslega sjósundi og sjóböðum á norðlægum slóðum, umfram aðra líkamlega hreyfingu. Ef fyllsta öryggis er gætt og líkamanum er ekki ofgert, bendir þó ekkert til annars en að sjóböðum fylgi sömu jákvæðu heilsufarlegu áhrif og með hverri annari líkamsrækt. Ekki er heldur hægt að útiloka að aukið álag sjósundsins á viss lífeðlisfræðileg kerfi, eins og til dæmis blóðrásarkerfið, hitastjórnunarkerfið og ónæmiskerfið, hafi einhver jákvæð aðlögunaráhrif umfram aðra líkamsrækt. Frekari rannsókna er þó þörf til að sannreyna það.

Myndir:

Upprunalega spurningin frá Ólafi hljóðaði svona:
Því er almennt haldið fram að sjóböð/sjósund í köldum sjó séu holl fyrir líkamann. Er þetta rétt og hvað veldur því?

Höfundur

Þórarinn Sveinsson

prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ

Útgáfudagur

3.2.2009

Spyrjandi

Ólafur Árnason, Gunnar Örn Þorsteinsson, Örn Úlfar Sævarsson, Sigurður Ólafsson, Snorri Stefánsson

Tilvísun

Þórarinn Sveinsson. „Er sjósund í köldum sjó hollt?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=50871.

Þórarinn Sveinsson. (2009, 3. febrúar). Er sjósund í köldum sjó hollt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=50871

Þórarinn Sveinsson. „Er sjósund í köldum sjó hollt?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=50871>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er sjósund í köldum sjó hollt?
Sjósund hefur ekki verið rannsakað mikið og því er lítið hægt að fullyrða um hollustu eða skaðsemi þess. Sjósund reynir á líkamann og almennt gildir að mátuleg áreynsla er holl. Regluleg og hæfileg áreynsla framkallar aðlögun í líffærakerfum okkar og það hefur sýnt sig að þannig er hægt auka lífslíkur og draga úr líkum á ýmsum sjúkdómum og kvillum. Mest hefur þetta verið rannsakað í tengslum við hefðbundna loftháða áreynslu, eins og hlaup og göngu. Einnig hefur styrkþjálfun verið talsvert rannsökuð, til dæmis hjá eldra fólki, og þá hefur meðal annars komið í ljós að hún minnkar líkur á föllum og dregur úr beinþynningu.

Það sem greinir sjóböð eða sjósund á norðlægum slóðum frá annarri loftháðri áreynslu er hitastig umhverfisins og það álag sem það veldur líkamanum. Lágt hitastig eitt og sér veldur álagi og áhættu. Áhættunni er hægt að skipta í tvennt. Í fyrsta lagi þá eru það svokölluð skammtímaáhrif (e. acute), sem koma fram innan þriggja mínútna og í öðru lagi eru það langtímaáhrif (e. chronic), sem koma ekki fram fyrr en nokkuð mörgum mínútum seinna.


Sjósund í Nauthólsvík.

Helstu skammtímaáhættuþættirnir eru tveir: Annars vegar hætta á drukknun þegar sundfólkið tekur andköf sem orsakast af illa skilgreindum skynáhrifum á miðtaugakerfið. Hins vegar álag á hjarta og blóðrásarkerfið sem orsakast af snöggum samdrætti slagæðlinga sem liggja til húðar og útlima. Þetta getur valdið tímabundinni hækkun á blóðþrýstingi, bæði vegna aukins viðnáms æðakerfisins og aukningar í slagkrafti hjartans. Það er vel staðfest að þetta getur aukið líkur á hjartaáfalli.

Langtímaáhættuþættirnir eru þeir að líkaminn getur lent í vanda við að viðhalda æskilegum líkamshita. Þegar líkaminn kólnar, fellur líkamshitinn í kviðar- og brjóstholi, svo og í heila og það er skilgreint sem ofkæling. Ef hitastigið á þessum svæðum fellur niður fyrir 31°C getum við ekki aukið líkamshitann án utanaðkomandi hjálpar. Við höfum í raun misst stjórnina á líkamshitanum sem lækkar þá hratt og er kominn í frjálst fall, ef svo má að orði komast.

Ofkæling getur valdið alvarlegum og óafturkræfum skemmdum á ýmsum líffærum, svo sem heila, meltingarvegi og nýrum ef ástandið varir lengi. Ýmis vandamál geta líka komið upp við meðhöndlun á fólki sem hefur ofkælst og því er mikilvægt fyrir fólk sem stundar sjósund að kynna sér rétt viðbrögð við þeim.

Þegar synt er í köldum sjó minnkar blóðflæði til húðar vegna samdráttar æða þar. Þetta getur valdið auknum vatnsútskilnaði um nýru og til lengri tíma litið, vatnsskorti í líkamanum. Önnur þekkt langtímaáhrif eru svonefnd sundbilun (e. swimming failure). Hún lýsir sér í aukinni öndun og súrefnisupptöku en jafnframt minnkaðri sundgetu. Rannsóknir hafa sýnt að líkleg skýring á þessu er að hitastig í handleggsvöðum lækkar og vöðvaþreytu verður vart. Þar með aukast líkur á uppgjöf og drukknun.

Einnig hefur verið bent á að þéttleiki sýkla og vírusa getur verið óæskilega mikill á ákveðnum svæðum í sjó, til dæmis í námunda við staði þar sem skolplagnir og úrgangsefni eru losuð í sjó. Sýkingar hafa í sumum tilfellum verið raktar til sjóbaða en ýtarlegri faraldsfræðilegar rannsóknir vantar til að staðfesta hversu mikil áhættan sé. Þá má líka nefna að hætta getur stafað af eitruðum þörungum, hveljum og ýmsum öðrum dýrum, svo ekki sé talað um stærri rándýr, eins og hákarla. Þessar hættur ættu þó að vera það vel þekktar og kortlagðar að auðvelt sé að forðast þær.

Það sem skilur að sund í fersku vatni og sjó er seltustigið. Seltustig sjávar er mun hærra en líkamans en í fersku vatni er þessu öfugt farið, seltustig líkamans er miklu hærra. Þetta skapar ólík vandamál fyrir dýr sem anda með tálknum eða húð, í tengslum við salt- og vatnsbúskap. Eina vandamálið sem þetta skapar fólki og dýrum sem anda að sér lofti í lungu, er að sjó er ekki hægt að drekka við þorsta. Vatnstap, sem óhjákvæmilega verður alltaf eitthvað vegna svitamyndunar við áreynslu sem varir í lengri tíma en nokkrar mínútur, getur því valdið vatnskorti í líkamanum, ef menn hafa ekki ferskvatnsbirgðir meðferðis. Vatnsskortur getur aukið á þreytu, ofkælingu og orsakað blóðþrýstingsfall. Ekki eru nein lífeðlisfræðileg rök fyrir því að seltustigið sem slíkt hafi einhver heilsufarslega jákvæð áhrif á líkamann en ástæðulaust er þó að útiloka slíkt án frekari rannsókna.

Nokkur áhætta fylgir augljóslega sjósundi og sjóböðum á norðlægum slóðum, umfram aðra líkamlega hreyfingu. Ef fyllsta öryggis er gætt og líkamanum er ekki ofgert, bendir þó ekkert til annars en að sjóböðum fylgi sömu jákvæðu heilsufarlegu áhrif og með hverri annari líkamsrækt. Ekki er heldur hægt að útiloka að aukið álag sjósundsins á viss lífeðlisfræðileg kerfi, eins og til dæmis blóðrásarkerfið, hitastjórnunarkerfið og ónæmiskerfið, hafi einhver jákvæð aðlögunaráhrif umfram aðra líkamsrækt. Frekari rannsókna er þó þörf til að sannreyna það.

Myndir:

Upprunalega spurningin frá Ólafi hljóðaði svona:
Því er almennt haldið fram að sjóböð/sjósund í köldum sjó séu holl fyrir líkamann. Er þetta rétt og hvað veldur því?...