Bankaleynd hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Yfir hvaða svið bankaviðskipta nær leyndin? Hvað má upplýsa og hvað ekki?Í 7. kafla laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 er kveðið á um trúnaðarskyldur starfsfólks þeirra. Þar er lögð almenn skylda á allt starfsfólk fjármálafyrirtækja, endurskoðendur og hverja þá sem taka að sér verk fyrir fjármálafyrirtæki til að gæta þagnarskyldu. Þagnarskyldan nær til alls þess sem aðilar kunna að fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og varðar viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna þess. Brot gegn þessu ákvæði getur varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum skv. b-lið 112. gr. sömu laga. Þetta þýðir að starfsfólk fjármálafyrirtækja er bundið þagnarskyldu um fjárhagsstöðu, viðskiptahætti og hvað eina annað sem starfsfólk kemst að í starfi sínu um þá aðila sem eiga í viðskiptum við bankann. Þagnarskyldan tekur ekki til allra þeirra upplýsinga sem starfsmaður kann að komast yfir á vinnutíma heldur einungis til þess sem snertir viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna þess. Upplýsingar um glænýja sódavatnsvél á kaffistofu starfsmanna falla því ekki undir bankaleynd. Hins vegar er lagaákvæðið skýrt um að þagnarskyldan sé algjör um allar þær upplýsingar sem bankastarfsmenn kunna að komast yfir við framkvæmd starfs síns. Því næði ákvæðið jafnvel yfir smávægileg tilvik á borð við upplýsingar um flutning viðskiptamanns milli símfyrirtækja. Má bera orðalag þessarar greinar við þagnarskylduákvæði stjórnsýslulaga sem tekur eingöngu til „einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari“. Því er þagnarskylda starfsmanna fjármálafyrirtækja víðtækari en hin almenna þagnarskylda ríkisstarfsmanna. Undantekningar á þagnarskyldu þessari eru annars vegar þær að veita má upplýsingar milli fyrirtækja í samstæðum, svo sem til dótturfélags til áhættustýringar, og hins vegar eru allsherjarréttarlegar undantekningar sem eru lögbundnar og ætlaðar til verndar almannahagsmunum. Má skipta þeim niður í eftirfarandi þrjá flokka:
- Réttur fjármálaeftirlitsins til upplýsinga.
- Réttur skattayfirvalda til upplýsinga.
- Réttur lögreglu til upplýsinga við rannsókn opinberra mála.