Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fimm reikistjörnur sólkerfisins eru sýnilegar berum augum. Þær eru Merkúríus, Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus. Þær sjást yfirleitt á hverri nóttu þegar myrkur er og heiðskírt. Þó sjást þær ekki þegar þær eru svo nálægt sól, frá jörð að sjá, að þær eru aðeins fyrir ofan sjóndeildarhring meðan dagur er á lofti. Sumar nætur eru þær á kvöldhimninum en stundum sjáum við þær á morgnana og á ákveðnum skeiðum eru þær hátt á lofti á miðnætti og sjást þá alla nóttina.
Mars, Júpíter og Satúrnus eru bjartastar þegar þær eru í gagnstöðu við sól sem kallað er. Þá eru þær í suðri og jafnframt í hágöngu á miðnætti. Þetta gerist með reglulegu millibili hjá hverri þeirra um sig og nefnist það sólmiðaður eða sólbundinn umferðartími (e. synodic period); hjá Mars er þetta tímabil um 780 sólarhringar eða 26 mánuðir. Þegar Mars er í hágöngu er hann ein af björtustu stjörnum næturhiminsins en auk þess þekkist hann af því að hann er rauðleitur að lit.
Mars þekkist ágætlega af rauðleitum lit.
Af þessu leiðir að það hefur ekki verið neitt sérstakt afrek að "finna" Mars þar sem hann er oftast sýnilegur öllum sem vilja á hverri nóttu þegar stjörnubjart er á annað borð -- og stundum mjög bjartur. Þetta þýðir að ekki er hægt að benda á sérstakan mann og segja að hann hafi fundið Mars eða séð hann fyrstur.
Á hinn bóginn má vel hugsa sér að einhver hafi verið fyrstur til að átta sig á því að Mars er reikistjarna, það er að segja að hann hreyfist eftir himinhvelfingunni miðað við fastastjörnurnar. Þessi uppgötvun liggur ekki í augum uppi og hefur því verið nokkurt afrek á sínum tíma. En því miður getum við ekki bent á tiltekinn mann sem hafi gert þessa uppgötvun því að hún gerðist áður en sögur hófust, en með því er átt við tímabilið áður en ritöld hófst og menn fóru að skilja eftir sig skriflegar heimildir.
Þegar þetta er ritað í desember 2008 vill svo til að Mars er mjög nálægt sól frá okkur að sjá og því ekki sýnilegur á næturhimninum. Hann fjarlægist sólina smám saman og verður vel sýnilegur hér á landi í júlí-ágúst, fyrst á morgnana. Eftir það hækkar hann stöðugt á lofti frá einni nótt til annarrar og verður bjartari. Jafnframt færist háganga hans í Reykjavík frá kl. 9:49 að morgni í lok júlí til kl. 5:23 15. desember. Þá er hann líka orðinn ágætlega bjartur þegar hann kemur upp kl. 20:26.
Heimildir og mynd: