Skjárinn er húðaður að innan með fosfórljómandi (langljómandi, phosphorescent) efni sem hefur þann eiginleika að gefa frá sér ljós þegar rafeindir rekast á það. Í fyrstu var notaður fosfór í þessa húð en síðan fundust önnur hentug efni með sömu eiginleika, einkum úr flokki svokallaðra hliðarmálma (transition metals) og lantaníða (rare earths). Rafeindabyssan skýtur rafeindum í mjórri bunu á skjáinn. Þar sem rafeindageislinn lendir á skjánum sést ljós punktur hinum megin á skjánum og þannig er byggð upp mynd.Fyrstu tölvuskjáirnir lýstu grænu vegna þess að það er liturinn sem fosfór gefur frá sér þegar rafeindum er skotið á hann. Síðar breyttist þetta þegar farið var að nota önnur efni. Efnin sem um ræðir lýsa með mismunandi litum þegar rafeindir skella á þeim og liturinn getur einnig verið háður orku eða hraða rafeindanna. Í sumum tilfellum er skjárinn húðaður með tveimur lögum mismunandi efna og litnum breytt með orku rafeindanna. Orkuminni rafeindir ná aðeins að örva atóm í efra laginu en orkumeiri rafeindir ná inn í neðra lagið. Á tímabili var algengt að velja mátti milli litanna grænt, ljósbrúnt og hvítt á tölvuskjám. Nánar má lesa um bakskautslampa og fosfórljómun á vefritinu Wikipedia.
Af hverju voru fyrstu tölvuskjáirnir með grænum lit en ekki hvítir?
Útgáfudagur
15.6.2005
Spyrjandi
Hrönn Ágústsdóttir
Tilvísun
ÞV, HG og AÓ. „Af hverju voru fyrstu tölvuskjáirnir með grænum lit en ekki hvítir?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5061.
ÞV, HG og AÓ. (2005, 15. júní). Af hverju voru fyrstu tölvuskjáirnir með grænum lit en ekki hvítir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5061
ÞV, HG og AÓ. „Af hverju voru fyrstu tölvuskjáirnir með grænum lit en ekki hvítir?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5061>.