Í bókinni Saga daganna, eftir Árna Björnsson, segir:
Jólaföstu verður fyrst vart um miðja 5. öld í Antíokkíu á Sýrlandi og á Norður-Ítalíu en öld seinna í Rómaborg. Misjafnt var í fyrstu hversu löng jólafasta var. Í Gallíu var hún lengi höfð sex vikur og hófst á Marteinsmessu 11. nóvember. Í Róm kom Gregoríus páfi mikli þeirri reglu á um 600 að fastan skyldi hefjast fjórða sunnudag fyrir jól. Sú skipan náði þó ekki verulegri útbreiðslu fyrr en á 11. til 13. öld og var reyndar ekki fyrirskipuð öllum kirkjudeildum fyrr en árið 1570. Þessari reglu er þó fylgt í Kristinna laga þætti Grágásar. Sumstaðar var upphaf jólaföstu miðað við Andrésmessu 30. nóvember sem reyndar er ætíð í nánd við fjórða sunnudag fyrir jól. Í Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar frá 1275 er einnig svo til orða tekið að jólafasta hefjist þann sunnudag sem næstur er Andrésmessu.Hvers vegna Gregoríus páfi valdi að hafa fjóra sunnudaga er erfitt að segja til um. Þó má benda á, að þetta var ein af heilögu tölum kirkjunnar, eða eins og segir í bókinni Táknmál trúarinnar, eftir Karl Sigurbjörnsson:
Tala heimsins, höfuðáttirnar, árstíðirnar, höfuðskepnurnar, armar krossins. Guðspjallamennirnir, fljót Paradísar, höfuðdyggðirnar, stóru spámennirnir: Jesaja, Jeremía, Esekíel, Daníel.Hinar voru (og eru) 3, 7, 12, 40, 70 og 120. Í Austurkirkjunni hefst aðventan nú á tímum 15. nóvember og er í 40 daga, lýkur 24. desember. Sú tala kemur víða fyrir í Biblíunni (syndaflóðið, eyðimerkurgangan, fasta Móse á Sínaífjalli, fasta Elía, gleðidagarnir eftir páska), en eflaust er þó fyrst og síðast á bak við umrædda hefð tíminn sem Jesús fastaði í óbyggðum Júdeu, eftir að hafa verið skírður í ánni Jórdan, eins og greint er frá í 4. kafla Matteusarguðspjalls, 1. kafla Markúsarguðspjalls og 4. kafla Lúkasarguðspjalls. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað merkir aðventa?
- Hvað heita kertin fjögur á aðventukransinum?
- Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar?
- Af hverju höldum við jólin í desember ef sagt er að Jesú hafi fæðst í júlí?
- Light On Dark Water. Sótt 3. 12. 2009.