Sníkjudýrið berst í meltingarveg fiska með gróum á dvalarstigi. Þar opnast gróið og dýrið borar sig í gegnum meltingaveginn og dreifist með blóðrásinni um líkama fisksins. Því næst sest það að í líffærum, sérstaklega þeim sem blóðrennsli er mikið um, svo sem hjarta, nýru, lifur og milta, en sníkjudýrið kemur sér einnig fyrir í vöðvum. Ichthyophonus hoferi myndar blöðrur sem stækka hratt og þar inni fjölgar sníkjudýrið sér hratt og myndar ný hvíldargró sem eru tilbúin til að koma sér fyrir í nýjum hýsli. Sýkingin veldur blæðingum og skemmdum í líffærum sem leiða oft til dauða. Dánartíðnin er þó misjöfn eftir fisktegundum. Hún virðist vera há í síld en einnig í skarkola (Pleuronectes platessa). Sýkingar í síldarstofnum á Norður-Atlantshafi af völdum Ichthyophonus hoferi eru vel þekktar á undanförnum áratugum. Síðan 1850 eru þekktar 7-8 miklir faraldrar í síldarstofnunum í NV-Atlantshafi. Sá sem stendur okkur næst er faraldurinn sem kom upp í norsk-íslenska síldarstofninum um 1991-1992. Um svipað leyti var faraldur í síldarstofninum í Norðursjó. Svo virðist sem þessir faraldrar hafi staðið yfir í um 2 ár. Faraldurinn var svo slæmur í síldarstofninum í Norðursjó 1991 að við stendur Danmerkur rak dauða síld á strendur í gríðalegu magni. Hafrannsóknastofnun fylgdist á árunum 1991 til 2000 með tíðni Ichthyophonus-sýkingar í íslensku sumargotssíldinni en nú er faraldur í henni. Tíðni sýkingar var lág á þessum árum eða að meðaltali ein síld af hverjum þúsund. Engu að síður var sníkjudýrið til staðar í stofninum. Slíkt telst eðlilegt í villtum dýrastofnum en eitthvað hefur valdið því að faraldur hefur orðið í síldarstofninum. Helstu einkenni sýkingar af völdum Ichthyophonus hoferi eru gulleitir bólgublettir í innri líffærum og vöðvum. Súr lykt getur einnig verið af holdinu. Heimildir og mynd:
- Ichthyophonus hoferi – sníkjudýr í fiskum, frétt á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.
- Alexander V. Zubchenko and Tatjana A. Karaseva. "Ichthyophonus hoferi as One of Possible Causes of Increased Marine Mortality in Post-Smolts of Atlantic Salmon." Knipovich Polar Research Institute of Marine Fisheries and Oceanography (PINRO). NPAFC Technical Report No. 4.