Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í nútímamáli er merkingin í orðasambandinu að setjast í helgan stein að ‘draga sig í hlé, hætta að vinna’ og elsta dæmi Orðabókar Háskólans um þá notkun er frá fyrri hluta 19. aldar.
Í fornu máli var merkingin að ‘ganga í klaustur’. Að vísu var lýsingarorðið heilagur ekki með í orðasambandinu í elsta máli heldur var talað um að setjast í stein eða ganga í stein. Steinn er þarna í merkingunni ‘klaustur’.
Sumir gætu eflaust hugsað sér að setjast í helgan stein í klaustrinu Monte Casino á Ítalíu. Það er meginklaustur Benediktínareglunnar og var á miðöldum í tengslum við íslensk klaustur sem tilheyrðu þeirri reglu.
Undir lok Grettis sögu segir frá samtali þeirra hjóna Spesar og Þorsteins drómundar. Spes sagði: ,,Nú skulum við kaupa að þeim mönnum sem hagir eru á steinsmíði að þeir geri sinn stein hvoru okkru og mættum við svo bæta það sem við höfum brotið við guð.” Þarna á Spes við að láta reisa tvö klaustur. Síðar í sama kafla stendur: ,,Og lyktaði þessari smíð og á viðurkvæmilegum tíma og öllum hlutum tilbúnum skildu þau sína stundlega samvist að sjálfráði sínu að þau mættu því heldur njótandi verða heilagrar samvistu annars heims. Settist þá í sinn stein hvort þeirra og lifðu þau langan tíma sem guð vildi skipa og entu svo sína ævi“ (Grettis saga 92. kafli).
Í Flateyjarbók er þetta dæmi: ,,Konungrinn ... gékk í stein ok var einsetumaðr, meðan hann lifði“ (Fritzner, Johan III:539).
Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um helgan stein er frá miðri 17. öld en einnig er í kvæði eftir Eggert Ólafsson frá miðri 18. öld talað um kyrran stein: ,,Nú er mér kært í kyrran stein / að setjast sælu hjá, / sú leiðin þókti bein.“
Heimildir
Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske Sprog. III. Oslo 1954.
Grettis saga. Í: Íslendinga sögur. Fyrra bindi. Svart á hvítu, Reykjavík 1985.
Guðrún Kvaran. „Ég er sagður sestur í helgan stein. Hvar finn ég „helga steininn“!?“ Vísindavefurinn, 10. júní 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5048.
Guðrún Kvaran. (2005, 10. júní). Ég er sagður sestur í helgan stein. Hvar finn ég „helga steininn“!? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5048
Guðrún Kvaran. „Ég er sagður sestur í helgan stein. Hvar finn ég „helga steininn“!?“ Vísindavefurinn. 10. jún. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5048>.