Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Einfalda svarið við þessu er á þá leið að við viljum í grófum dráttum miða tímann á hverjum stað við sólarganginn, þannig að klukkan sé um það bil 12 þegar sól er hæst á lofti. Vegna kúlulögunar jarðar gerist þetta á mismunandi tímum eftir stöðum.
En þó að þessu sé svarað til getum við haldið áfram að spyrja: Af hverju viljum við endilega hafa þetta svona? Af hverju kjósum við ekki í staðinn að hafa bara sama tíma yfir alla jörðina? Miðað við lífshætti nútímans gæti það haft marga kosti og því er svarið við spurningunni ef til vill ekki augljóst þegar grannt er skoðað. Til að fá djúptækara svar þurfum við að líta yfir ákveðna þætti í sögu mannkynsins.
Fyrir daga tækninnar var mönnum langeðlilegast að nota sólina til að mæla tímann og fylgjast með honum yfir daginn. Út frá því fóru menn til dæmis að tala um hádegi þegar sólin er hæst á himni og jafnframt í suðri. Tilteknar þjóðir, einkum Babýlóníumenn, urðu fyrstar til að skipta deginum nánar í tímabil og þar komst sú hefð á að skipta sólarhringnum í 24 stundir eins og við þekkjum. Hún breiddist síðan út til nágrannalanda og til Evrópu en samgöngur voru ekki svo greiðar á þeim tíma að slíkar hefðir næðu miklu meiri útbreiðslu en það.
Þegar menn komu á nýjan stað virtist þeim sólargangurinn í aðalatriðum eins og heima hjá sér og þeim fannst því eðlilegt að tala um að klukkan væri "tólf á hádegi" á nýja staðnum þegar sólin væri í hágöngu. Þeir veltu því þá kannski ekkert sérstaklega fyrir sér hvort það væri sami tími og heima, en eflaust hefur þeim þótt það liggja beinast við.
Fróðir og glöggir menn komust þó að því á tímum Forngrikkja að svo er ekki í raun og veru; hádegi á einum stað er ekki samtímis hádegi á öðrum stað sem er annaðhvort vestar eða austar. Hins vegar kom þessi munur þá lítt við sögu í daglegu lífi og menn héldu því áfram að miða tímann á hverjum stað við göngu sólar þar en ekki einhvers staðar annars staðar. Þetta er lykillinn að staðartímanum og tímamuninum eins og við þekkjum hann nú á dögum.
Glöggir menn notuðu sér muninn á staðartíma ásamt fleiru til að draga ályktanir um lögun jarðarinnar og jafnvel stærð og síðar um afstöðu einstakra staða. Menn skoðuðu þá atburði sem sjást frá stórum svæðum á jörðinni, til dæmis sólmyrkva eða tunglmyrkva. Þegar gögn frá mismunandi stöðum eru borin saman sést að staðartími þessara atburða er mismunandi og munurinn er í réttu hlutfalli við muninn á landfræðilegri lengd staðanna.
Flórensbúinn og landkönnuðurinn Amerigo Vespucci (1454–1512), sem Ameríka er kennd við, notaði til dæmis athuganir á tunglmyrkva til að ákvarða landfræðilega lengd Suður-Ameríku skömmu eftir aldamótin 1500 og sýndi þar með fram á að menn hefðu fundið nýja heimsálfu en ekki nýja leið til Austur-Asíu eins og Kólumbus hélt. Vespucci sést hér ofar í svarinu, myndin er hluti af málverki eftir annan Flórensbúa, málarann Domenico Ghirlandaio (1449–1494).
Það var hins vegar ekki fyrr en á 18. öld sem breska klukkusmiðnum John Harrison (1693–1776) tókst að gera nægilega nákvæmar klukkur til þess að geta gert samfelldar mælingar á landfræðilegri breidd í sjóferðum. Eftir það hefði verið hugsanlegt að ákveða að hafa sama tímann alls staðar á jörðinni, og enn frekar eftir að hvers konar þráðlaus fjarskipti komu til sögunnar á 20. öld. En það var ekki gert og þess vegna sitjum við uppi með flækjur staðartíma og tímabelta, sem hafa raunar líka ýmsa kosti!
John Harrison sést hér fyrir ofan. Myndin er frá árinu 1768.
Heimildir:
Fernández-Armesto, Felipe, 2006. Amerigo: the Man Who Gave His Name to America. Weidenfeld & Nicolson.
Sobel, Dava (1995). Longitude: The True Story of a Lone Genius Who Solved the Greatest Scientific Problem of His Time. New York: Penguin.
Sobel, Dava & Andrewes, Willam J.H. (1998). The Illustrated Longitude: The True Story of a Lone Genius Who Solved the Greatest Scientific Problem of His Time. New York: Walker Publishing Co.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna er tíminn mismunandi eftir löndum?“ Vísindavefurinn, 24. nóvember 2008, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=50398.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2008, 24. nóvember). Hvers vegna er tíminn mismunandi eftir löndum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=50398
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna er tíminn mismunandi eftir löndum?“ Vísindavefurinn. 24. nóv. 2008. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=50398>.