Hugmyndin á bakvið geimförin var einföld. Hvert þeirra var langur sívalningur, þar sem áhöfnin sat fremst ofan á risastórum höggdempara. Til að keyra farið áfram átti að sleppa kjarnorkusprengjum aftan úr því, sprengja þær nokkra metra frá geimfarinu og fleyta farinu áfram á orkunni úr sprengingunni. Fyrir hverja ferð innan sólkerfisins þyrfti á bilinu 500 til 1000 kjarnorkusprengjur. Til að koma farinu af stað átti að sprengja eina sprengju á sekúndu fresti, en þegar því væri lokið myndi farið sigla áfram í tóminu án mótstöðu. Óríon-geimförin voru talsvert hraðskreiðari og stærri en öll önnur geimför sem hefur þótt raunhæft að smíða hingað til. Þau áttu að geta komist til Mars á um fjórum vikum, sem er ferðalag sem að tekur hálft ár í dag, og þau áttu að geta farið hringferð til Satúrnusar á þrem árum. Stærsta skipið átti að geta ferðast á um 10% af ljóshraða, sem myndi gera því kleift að komast til næsta sólkerfis á rúmum 40 árum. Samkvæmt teikningunum átti þetta stærsta skip að vera 400 metra langt, vega átta milljón tonn og geta borið 1.300 tonna farm á áfangastað sinn. Þó þessar hugmyndir hljómi eins og hreinasti vísindaskáldskapur, þá eru Óríon-geimförin raunhæf, þau eru hagkvæmasta leiðin sem við þekkjum til að koma mönnum hratt til annarra pláneta, og þau eru enn sem komið er eina leiðin sem vísindamönnum hefur dottið í hug til að koma mönnum til annarra sólkerfa á tiltölulega stuttum tíma. Allar aðrar slíkar hugmyndir byggja á tækni sem ennþá er ekki til, eins og til dæmis samrunakjarnaofnum, en ef að vilji væri fyrir hendi mætti smíða Óríon-förin með þeirri tækni sem er til í dag. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Að hverju þarf að gæta ef menn vilja nema land á tunglinu? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvaða líkur eru á að menn geti flust til annarra reikistjarna, og hvernig færum við þá að því? eftir Sævar Helga Bragason og Þorstein Vilhjálmsson.
- Er hugsanlegt að maðurinn geti lifað á öðrum plánetum með hjálp tækninnar? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Grein um Óríon-verkefnið á vefsíðu Island One.
- Kjarnorkusprengjuknúnar vélar á Wikipedia.
- Teikningin er af Wikipedia.