Á 16. og 17. öld fóru menn svo að nota pendúlklukkur en í þeim eru sveiflur pendúlsins taldar og þær stjórna síðan vísunum á klukkuskífunni. Í flestum nútímaklukkum og armbandsúrum er hins vegar ekki notaður pendúll heldur þess í stað eins konar „tónkvísl“ úr kvartskristal sem titrar með ákveðinni tíðni. Um kvarsúrin segir þetta í svari Kristjáns Leóssonar við spurningunni Hvað er frumeindaklukka?:
Stærð og lögun kristalsins ákvarða sveiflutíðnina og hún er oft valin nálægt 30 kHz (30 þúsund sveiflur á sekúndu). Kvartskristall hefur þann eiginleika að ef hann breytir lögun sinni þá myndast örlítil rafspenna á yfirborði hans. Sveiflum kristalsins má því breyta í rafboð með sömu sveiflutíðni. Örrásir taka við rafboðunum, nota þau til að ákvarða lengd einnar sekúndu eða mínútu og stjórna úrverkinu sem færir vísa klukkunnar. Venjulegar kvartsklukkur eru það nákvæmar að þeim skeikar ekki um meira en eina sekúndu á sólarhring. Slík frávik geta flestir sætt sig við.Frekara lesefni á Vísindvaefnum:
- Hvað mundi gerast ef klukka væri ekki til? eftir ÞV
- Hver fann upp fyrstu vekjaraklukkuna og hvenær var það? eftir HMS
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.