Jóhannes Páll II.
Það er flestum kunnugt að Rómarbiskupar líta á sig sem eftirmenn Péturs í þessum skilningi. Allt til þessa dags hefur enginn annar biskup haldið því fram að sér beri embætti Péturs. Það er að vísu rétt að á upphafsárum kirkjunnar voru þessir stjórnarhættir ekki eins áberandi og þeir urðu síðar, enda var kirkjan þá ekki orðin það útbreidd að þörf væri á sterku valdi til þess að halda henni sameinaðri. Þó eru til skjöl frá fyrstu tímum kirkjunnar sem víkja að forustuhlutverki Rómarbiskups, til dæmis ritaði Ireneus frá Lyon sem uppi var um það bil 125-202: „Allar kirkjur verða að vera á einu máli með Rómarkirkju, vegna hinnar háu tignar hennar því að í henni hefur postulleg erfikenning ævinlega varðveist.“ Það verður ekki lengi dregið í efa að frá 4. öld var það almenn sannfæring manna, jafnvel meðal andstæðinga páfaveldisins, að Rómarbiskup væri forystumaður annarra biskupa. Völd og tign páfanna færðust síðan í aukana öld fram af öld. Sú þróun náði hámarki á 1. Vatíkanþingi árið 1870, og með þeim miklu páfum sem þá tóku við hver af öðrum. Á 2. Vatíkanþinginu (1962–1965) var tekin ný stefna sem miðaði að dreifingu valdsins, þannig að síðan hefur verið lögð meiri áhersla á samábyrgð allra biskupanna. Það er sannfæring kaþólskra manna að Kristur hafi sjálfur haft í huga einskonar „jarl“ á jörðu, og það er ekki sama og „eftirmaður“. Eftirmaður kemur í stað einhvers sem dáinn er eða hefur látið af embætti. En Kristur lifir áfram og er höfuð kirkjunnar og því er ekki rétt að segja að Pétur hafi komið í stað Krists. Þess vegna er villandi að tala um „páfakirkju“. Páfinn er eftirmaður Péturs en jarl eða staðgengill Krists. Algengast er að tala um hann sem staðgengil. Staðgengill gegnir innan vissra marka embætti einhvers sem ofar honum er settur. Raunverulegt vald er því í höndum þess sem æðra er settur og undirmaður hans er ábyrgur gagnvart honum. Mynd: Catholic Mission