Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sérhver hlutur sem hefur massa verkar á aðra massa með þyngdarkrafti, sem er hins vegar mismikill eftir því hve mikill massi upphaflega hlutarins er og eftir því hversu langt við erum frá miðju hans. Þyngdarkraftur verkar því á tunglinu alveg eins og á jörðinni. Eini munurinn er sá að þyngdarkrafturinn á tiltekinn hlut á tunglinu er miklu minni en á sama hlut á jörðinni og hluturinn virðist því léttari þar en við yfirborð jarðar.
Þyngdarkraftur frá hlut er í réttu hlutfalli við massa hlutarins eða efnismagn en minnkar á hinn bóginn með vaxandi fjarlægð frá miðju hlutarins. Massi tunglsins er margfalt minni en massi jarðar og það verkar til þess að létta hlutinn. Hins vegar er geisli tunglsins líka minni en geisli jarðar og það gerir hlut á yfirborðinu þyngri en ella. Þegar þessi tvenns konar áhrif eru tekin saman kemur út að hlutur á yfirborði tunglsins er um 6 sinnum léttari en sami hlutur væri við yfirborð jarðar. Hægt er að lesa nánar um þetta í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað veldur aðdráttaraflinu og hvers vegna er það mismunandi milli tungla og reikistjarna?
Ef maður sem er 60 kg fer til tunglsins verður hann jafnþungur þar og 10 kg hlutur væri á jörðinni. Á tunglinu á maðurinn þess vegna afskaplega auðvelt með að hoppa hátt og langt, en að vísu spillir fyrir að þar þurfa menn að vera í fyrirferðarmiklum geimbúningum.
Mynd:
Myndin sýnir Buzz Aldrin á tunglinu. Hún er fengin af vefsíðunni Cosmos
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.
JGÞ og ÞV. „Hvers vegna er þyngdarafl á jörðinni en ekki á tunglinu?“ Vísindavefurinn, 17. nóvember 2008, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=50143.
JGÞ og ÞV. (2008, 17. nóvember). Hvers vegna er þyngdarafl á jörðinni en ekki á tunglinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=50143
JGÞ og ÞV. „Hvers vegna er þyngdarafl á jörðinni en ekki á tunglinu?“ Vísindavefurinn. 17. nóv. 2008. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=50143>.