Hugsum okkur að við séum stödd á einhverjum stað á yfirborði jarðar og förum þaðan í hánorður þar til við komum á Norðurpólinn og síðan beint áfram í suður til Suðurpóls og enn beint áfram en nú til norðurs. Við munum þá að lokum enda á sama stað og við fórum frá eftir að hafa farið heilan hring á yfirborði jarðar. Við höfum þá farið endanlega, tiltekna vegalengd og ferðin hefur tekið ákveðin tíma en hún hefur samt verið endalaus í þeim skilningi að við komum aldrei að neinum endimörkum þar sem við þurftum til dæmis að snúa við.Við gætum þess vegna haldið ferð okkar áfram, alveg eins og þegar við teljum náttúrlegu tölurnar, án þess að koma að endapunkti. Alheimurinn gæti verið einhvers konar kúla eins og hér hefur verið lýst. Ef við ímyndum okkur að við færum af jörðinni í óralanga ferð beint af augum í tiltekna átt þá gæti þess vegna verið að við kæmum aftur til baka úr gagnstæðri átt. Og þannig gætum við haldið ferðinni áfram án þessa að þurfa nokkurn tíma að snúa við. Það er rétt að taka fram að raunveruleg ferð af þessu tagi er alls ekki möguleg! Frekara lesefni:
- Hvernig getur hugtakið "óendanlegt" staðist? Allt hlýtur að eiga upphafs- og endapunkta? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Er hægt að hugsa til enda að eitthvað sé endalaust? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Ef maður fer eftir beinni línu frá jörðu út í geiminn nógu lengi, endar maður þá aftur á jörðinni? eftir Þorstein Vilhjálmsson
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.